131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Upplýsingar um Íraksstríðið.

[13:35]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að ræða á hverjum einasta degi ekki aðeins innrásina í Írak heldur kannski miklu fremur trúverðugleika hæstv. forsætisráðherra Íslands, Halldórs Ásgrímssonar. Þetta mál snýst nefnilega nú orðið um það hvort hann er að segja Alþingi og þjóðinni satt og rétt frá. Í mínum huga er veigamesta atriðið í þessu máli samráðsskylda ríkisstjórnarinnar og ráðherra við Alþingi. Í 24. gr. þingskapalaga segir, með leyfi forseta:

„Utanríkismálanefnd skal vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt á þingtíma sem í þinghléum.“

Nú er það álitamál hvað skuli teljast meiri háttar mál. Um það fjallar m.a. Eiríkur Tómasson í rannsókn sinni samkvæmt Morgunblaðinu í dag. Hann segir að það hljóti að vera matsatriði hverju sinni. Ég hefði haldið að átökin sem áttu sér stað í febrúar og mars árið 2003 innan öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og í heiminum öllum um það hvort ráðast ætti inn í Írak með eða án stuðnings Sameinuðu þjóðanna hljóti að teljast meiri háttar utanríkismál.

Eiríkur Tómasson segir í álitsgerð sinni að sér sé tjáð að hæstv. þáverandi utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, hafi komið á fund utanríkismálanefndar og síðan leggur hann út af þeim fundi. Hefur prófessorinn séð þessi gögn? Á hverju byggir hann mat sitt? Ég spyr.

Hann segir jafnframt að ákvörðun ríkisstjórnarinnar hafi snúist um það að afvopna Íraka. Hvað sagði hæstv. utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, á þessum fundi? (Forseti hringir.) Sagðist hann hafa sannfærst um að Írakar hefðu (Forseti hringir.) gereyðingarvopn og það þyrfti að afvopna þá eða sagði hann eitthvað annað? Þetta verður að upplýsa. (Forseti hringir.) Þess vegna verður að aflétta þeirri leynd sem hvílir á gögnum nefndarinnar.