131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Upplýsingar um Íraksstríðið.

[13:49]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Aðeins þetta, hvers vegna skiptir listi yfir hinar svokölluðu viljugu þjóðir máli? Það er vegna þess að hann hefur stórpólitíska þýðingu, og hafði stórpólitíska þýðingu á sínum tíma. Bandaríkjamenn, Bandaríkjastjórn, Bush-stjórnin fékk ekki stuðning öryggisráðsins, fékk ekki pólitískan stuðning frá öryggisráðinu til að ráðast inn í Írak og varð þess vegna að leita eftir stuðningi á öðrum vettvangi. Þar fær þessi listi þýðingu. Hann hefur stórpólitíska þýðingu og er stórpólitískt utanríkismál.

Það skiptir þess vegna máli hvernig ákvarðanir voru teknar, hvenær þær voru teknar og á hvaða forsendum þær voru teknar. Okkur er núna sagt að ríkisstjórnin hafi greint Alþingi frá þessu á fundi með utanríkismálanefnd hinn 19. febrúar árið 2003. Það skiptir þess vegna öllu máli að fá upplýst hvað þar fór fram. Í 24. gr. þingskapalaga segir eftirfarandi um utanríkismálanefnd og leynd sem hvílir þar á, með leyfi forseta:

„Nefndarmenn eru bundnir þagnarskyldu um þá vitneskju sem þeir fá í nefndinni ef formaður eða ráðherra kveður svo á.“

Nú hefur hæstv. ráðherra lýst því yfir hér á Alþingi að hann sé því ekki andsnúinn að þessi gögn verði birt. Ég reikna þá með því og við hljótum að ganga út frá því að meiri hluti nefndarinnar fallist á að svo verði gert. Ég tel mjög mikilvægt að þessi gögn (Forseti hringir.) verði reidd fram á þann hátt sem hæstv. ráðherra hefur lýst yfir hér á Alþingi að hann sé reiðubúinn að beita sér fyrir.