131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Upplýsingar um Íraksstríðið.

[13:54]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ja, mikið heldur hv. þingmaður að vald okkar Íslendinga sé. Hann sagði áðan að ef við hefðum ekki verið á þessum fræga lista sem Bandaríkjamenn birtu (ÖS: Og hinar 29 þjóðirnar.) hefði ekkert orðið úr neinu.

Það virðist vera alveg sama hvað hér er sagt. Því er haldið fram af hv. talsmönnum stjórnarandstöðunnar að lög hafi verið brotin. Þeir hafa ekki fyrir því að kalla til sérfróða menn til að leiða í ljós hvort svo sé. (Gripið fram í.) Þeir halda áfram með fullyrðingar sínar, taka ekkert mark á sérfróðum mönnum vegna þess að það fellur ekki í kramið. Þeir tóku mark á viðkomandi aðilum í fjölmiðlamálinu, ég man eftir því, (Gripið fram í: … gögnin …) en núna hentar það ekki og þá taka þeir ekkert mark á þeim.

Það liggur náttúrlega alveg ljóst fyrir, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að það var mikill viðbúnaður í Miðausturlöndum og að þangað hófust flutningar löngu fyrir febrúar. Þingmaðurinn hlýtur að muna þetta. Og auðvitað þurftu þeir flutningar að fara um mörg lönd, í mjög litlum mæli hér um Ísland. Auðvitað tókum við Íslendingar þátt í því ásamt öðrum þjóðum.

Ég man ekki betur en að hv. þingmaður styddi ályktun 1441 þar sem m.a. var gert ráð fyrir því að til þess gæti komið að beita valdi. Ég man ekki betur. En hann virðist vera búinn að gleyma þessu öllu núna í formannsslagnum. Það er eiginlega merkilegt hvað gleymskan herjar mikið á þennan mann. Það er eins og að eitthvert stríð hafi herjað á hann þannig að ég ætla að biðja hann um að fá það ekki algjörlega á heilann. (Gripið fram í: Er ekki boltinn hjá ykkur?)