131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[14:32]

Frsm. minni hluta allshn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hafi ég skilið hæstv. dómsmálaráðherra rétt telur hann að alveg kolómögulegt sé að vita hvaða sparnaður liggur að baki við samþykkt frumvarpsins. Hins vegar kemur fram í svari hæstv. dómsmálaráðherra frá 17. nóvember sl., með leyfi forseta:

„Ef hv. allsherjarnefnd vill fara ofan í kostnaðartöluna og skoða einstök mál og átta sig á hvað er greitt vegna einstakra mála þá er eflaust unnt fyrir nefndina að gera það.“

Þetta segir hæstv. dómsmálaráðherra, að það ætti að vera unnt að skoða þessar tölur og hvetur nefndina til að gera slíkt. Við kölluðum eftir þeim tölum og fengum svona gisktölur frá fulltrúa ráðuneytisins. Það var giskað á að þetta mundi spara 10–15 millj. Í sama svari hæstv. dómsmálaráðherra er hann á sama reki, en það er alveg ótækt að hæstv. dómsmálaráðherra leggi fram frumvarp vitandi að það sé hægur leikur að skoða þær kostnaðartölur en hann hefur ekki fyrir því að finna þær sjálfur og baktryggja frumvarp sitt sem hefur það meginmarkmið að spara og hann hefur ekki fyrir því að setja tölurnar fullunnar í frumvarpið. Að þessu leyti tel ég frumvarpið vera illa unnið.

En þetta er kannski ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er að hér er á ferðinni pólitískur ágreiningur hvað þetta mál varðar. Við í minni hlutanum teljum að það eigi að vera heimild til gjafsóknar í málum sem varða almannahagsmuni eða verulega hagsmuni einkaaðila, ekki eingöngu vegna fjárhagsstöðu heldur vegna málsatvikanna, efnisatriðanna. Við höfum bent á mikilvæga málaflokka eins og mannréttindi, læknamistök, umhverfismál, mál vegna kosninga o.s.frv. Þetta eru málaferli sem við teljum réttlætanlegt að hið opinbera komi að með einhverjum hætti.

Í lokin langar mig að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort hann telji ekki rétt að hinar efnislegu takmarkanir sem finna ber í reglugerðinni eigi ekki frekar heima í lögunum en í reglugerðinni. Eins og ég rakti áðan kemur upphæðin sem gjafsóknin miðast við í reglugerðinni og ég vil kalla eftir því svari frá hæstv. dómsmálaráðherra á eftir.