131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[15:07]

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegur forseti. Það frumvarp sem hér er á dagskrá um þriðju kynslóð farsíma hefur verið til umræðu í hv. samgöngunefnd eins og hér hefur verið greint frá og segir í nefndaráliti en ég ásamt félaga mínum úr Samfylkingu skrifuðum upp á það nefndarálit með fyrirvara. Þeir fyrirvarar voru m.a. um ýmislegt í þessu máli og það sem ég staldraði fyrst við og hafði efasemdir um var um það hvort þörf sé á að setja þessi lög nú. Aðalrökstuðningur, að mér fannst, samgönguráðuneytismanna var að það þyrfti að setja lagaumhverfi ef einhverjir útlendingar kæmu og mundu sækja um leyfi fyrir þriðju kynslóð farsíma.

Út af fyrir sig getur verið rétt að nauðsynlegt sé að hafa þetta. En á móti kemur að fulltrúar annars ef ekki beggja stóru símafyrirtækjanna sem þarna komu og m.a. skiluðu gögnum sem rétt er að hafa í huga, virðulegi forseti, að voru mjög svipuð og þau sem hafa verið lögð fram á undanförnum þingum þegar þetta mál hefur verið rætt, höfðu ákveðna fyrirvara um að yfir höfuð væri þörf á þessu og töldu að þriðja kynslóð farsíma hér á Íslandi væri kannski langt undan.

Það kom fram m.a. á fundinum, virðulegi forseti, að töluverður kostnaður fylgir því að fara út í þriðju kynslóð farsíma fyrir símafyrirtækin og land og þjóð ef út í það fer. Ég hef ákveðnar efasemdir um að nokkur þörf sé á því núna árið 2005. Ég vil segja það, virðulegi forseti, að það getur vel verið að það komi í ljós síðar meir að það hefði bara verið ágætt að við Íslendingar hefðum ekkert verið að flumbrast áfram með þriðju kynslóð farsíma, lagagerð eða útboð eða annað, að það hefði kannski bara verið ágætt að við slepptum því vegna þess að við vitum að erlend símafyrirtæki eru mjög brennd af þeim mikla uppboðsmarkaði sem upphófst af þriðju kynslóð farsíma. Þau buðu hátt og þetta hefur svo ekkert mikið gengið eftir. Með öðrum orðum, virðulegi forseti, er ég að segja að kannski er þróunin það hröð í þessu að menn bara hoppa yfir þetta þriðju kynslóðar farsímadæmi og við kannski sleppum því bara hér.

Einnig var mikið rætt í nefndinni um svokallaðan tveggja og hálfs kynslóðar farsíma með svokallaðri „edge“ tækni. Ég er einfaldlega að segja, virðulegi forseti, að símafyrirtækin eru ekkert voðalega mikið að ýta á eftir þessu frumvarpi og það er mjög athyglisvert. Ég nefndi þrjár ástæður. Mikill kostnaður er þessu samfara, það er áhugaleysið og svo þessi tveggja og hálfs kynslóðar sími og það að þetta kerfi eða þessir þriðju kynslóðar farsímar séu vegna hraðrar þróunar í þessum tækniheimi að verða úreltir og við höfum því kannski bara ekkert með þá að gera.

Það er þetta einna helst, virðulegi forseti, sem ég vildi láta koma fram um efasemdir okkar samfylkingarmanna með þetta. Einu rökin sem voru sett fram sem gera það að verkum að við þurfum kannski að samþykkja þessi lög hér eru að hafa þetta sjóklárt, ef svo má að orði komast, ef einhverjir útlendingar koma og sækja um, þó að maður efist nú um það. Á hinn bóginn gæti við að samþykkja þessi lög upphafist kapphlaup milli símafyrirtækjanna við að fara út í þetta og þar hef ég lýst mínum efasemdum.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekkert að hafa þetta miklu lengra nú í upphafi. Ég kem kannski síðar þegar ég hef ákveðin gögn sem ég hefði nú viljað hafa í höndum við að ræða þetta, en sem af tæknilegum ástæðum voru farin úr möppum okkar þingmanna. Það er ekkert við því að segja. Það gerðist vegna þess að ætlunin var að klára þetta mál fyrir jólaleyfið. En það tókst ekki. Það var látið bíða og er því nú rætt hér á öðrum degi þingsins eftir jólahlé.