131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[15:12]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Sá sem hér stendur flytur ásamt hv. þm. Kristjáni Möller og hv. þm. Jóni Bjarnasyni breytingartillögur við þetta mál og er rétt að ég geri grein fyrir því í upphafi máls míns. Breytingartillögurnar snúa að 2. gr. frumvarpsins.

Við þá grein leggjum við til að sett verði inn ákvæði sem gerir það að verkum að úthlutun á tíðnum fari eigi fram fyrr en í fyrsta lagi 1. janúar 2007. Þetta er sem sagt frestunarákvæði.

Greinin mundi þá hljóða svo, með leyfi forseta:

„Póst- og fjarskiptastofnun úthlutar tíðnum skv. 1. gr., þó ekki fyrr en eftir 1. janúar 2007.“

Við töldum að ýmislegt hefði komið fram um málið, þ.e. þriðju kynslóð farsíma, sem benti til að ástæða væri til að flýta sér hægt. Ég held að ef eitthvað er hafi, frá því að við fjölluðum um þetta mál, bæst við upplýsingar í þá veru að jafnvel sé ekki sérstök þörf á því að taka til við þetta né mikill áhugi hjá sumum símafyrirtækjum. Því hefur verið lýst þannig að símafyrirtækin sæju ekki ástæðu til að fara hratt í þessu máli og að jafnvel væri enginn áhugi fyrir því að fara af stað með þriðju kynslóð farsíma. Í því sambandi hefur m.a. verið nefnd ný tækni, hin svokallaða önnur og hálf kynslóð farsíma sem byggist á eldri tækni GSM-símkerfisins og breytingum á því.

Niðurstaða okkar og fyrirvari við nefndarálitið snýr m.a. að því að við teljum ástæðu til að fresta þessu máli. Í annan stað leggjum við til að í stað hlutfallstölunnar 60% komi 75%. Það snýr að 3. og 4. gr. frumvarpsins eins og það lítur út og tekur til þeirrar dreifingarskyldu sem á við þegar talað er um útboð fyrir ákveðin landsvæði sem er skilgreind eru í frumvarpinu. Þau eru skilgreind þannig, samkvæmt 3. gr. frumvarpsins: „a. höfuðborgarsvæðis, b. Vesturlands, Vestfjarða og Norðurlands vestra, c. Norðurlands eystra og Austurlands, d. Suðurlands og Suðurnesja.“

Þetta eru svæðin sem um er rætt þegar talað er um hvaða þjónustustig verði uppfyllt með því að ná til notenda. Í frumvarpinu er talað um 60% en í breytingartillögu okkar þremenninganna leggjum við til að þar standi talan 75% og við hana miðist sá afsláttur sem getið er um í 4. gr. Afslátturinn gæti þá byrjað að telja þegar menn næðu 75% og meira. Eftir sem áður mundu tölurnar í 4. gr. ekki breytast, annars vegar að hámarksupphæðin fyrir tíðnigjald sé upp á 190 millj. kr. og upphæðin geti lægst orðið 40 millj. kr., þ.e. ef sú útbreiðsla næst sem gefur þann afslátt. Ef ég man rétt á afslátturinn að geta numið 10 millj. kr. fyrir hvern hundraðshluta til viðbótar því sem gert er ráð fyrir í lögum. Við leggjum sem sagt til að þessi viðmiðunartala verði ekki 60% heldur 75%. Þar af leiðandi verður sterkari kvöð um meiri útbreiðslu og verður að taka tillit til þess í útboðum. Krafan væri þannig um að ná til 75% íbúa svæðisins.

Það eru ýmsar ástæður fyrir þessari framsetningu okkar, m.a. þær að okkur sýnist að nokkuð auðveldlega megi ná 60%, þ.e. með því að ná aðeins til mestu þéttbýlisstaðanna í hverju kjördæmi og þar af leiðandi verði ekki mikil kvöð að ná nægri dreifingu. Að vísu er þó þessi gulrót, um afslátt fyrir hvert prósent umfram þá dreifingu sem sett eru skilyrði um. Þetta er sem sagt tillaga okkar og lýtur m.a. að fyrirvara sem við höfðum við nefndarálitið.

Þriðja tillagan er við 6. mgr. 5. gr. Þar bætist við nýr málsliður, svohljóðandi:

„Þá skal þar koma fram að tryggt verði að notendur annarra símkerfa greiði ekki aukakostnað vegna símhringinga í símkerfi samkvæmt þessum lögum.“

Þetta er auðskilinn texti. Við erum í raun að segja að við viljum að það verði algjörlega tryggt að þeir sem hringja í önnur símkerfi, hvort sem það er NMT-kerfið eða GSM-kerfið, eða að nota koparlínurnar, þurfi ekki að greiða kostnaðinn af þriðju kynslóð farsíma, að sá kostnaður færist ekki yfir á þá notendur. Ég held að það hljóti að vera réttlætismál að þeir sem nota þriðju kynslóð farsíma, verði hún tekin upp hér á landi sem ég er alls ekkert viss um miðað við hraða tækninnar, greiði kostnaðinn og tryggt verði að notendur í öðrum kerfum greiði ekki þann kostnað, hvorki dreifingarkostnað né annan notkunar- eða þjónustukostnað vegna þriðju kynslóðarinnar. Fyrir það á að girða og út á það gengur breytingartillaga okkar.

Almennt má segja, virðulegur forseti, að sífellt fleiri rök hnígi til þess að við eigum að flýta okkur afar hægt við að setja þetta mál í gang og skoða vandlega á hvaða vegferð við erum. Menn sem ég hef rætt við hjá símafyrirtækjunum hafa látið þau sjónarmið í ljós að það sé ekki mikill áhugi hjá símafyrirtækjunum að takast á við þetta átak, keppa um þriðju kynslóð farsíma og nýtt dreifikerfi fyrir hana. Ég held að menn ættu að staldra aðeins við í því sambandi.

Ýmis annar kostnaður sem verður til í símkerfum eða fjarskiptakerfum yfirleitt er annar þáttur sem við gætum blandað inn í umræðuna. Til fellur kostnaður við fjarskiptin, dreifingu á sjónvarpsefni, margmiðlun og öðru slíku. Í því sambandi komu fram athyglisverðar upplýsingar í svokallaðri fjölmiðlanefnd þar sem ég sat tvo fundi. Þar kom eiginlega fram sú fullyrðing að Íslendingar væru sennilega að gera dýrustu tilraun sem þekkt væri í veröldinni við dreifingu á margmiðlunarefni, sjónvarpsefni og tölvutengdu efni. Allt bendir til þess að hér séum við að búa til þrefalt, fjórfalt eða jafnvel fimmfalt dreifikerfi.

Síminn keypti Skjá einn, til að gera hvað? Til að nota hugsanlega koparlínurnar sínar. Þeir standa frammi fyrir því á Símanum að koparlínur í jörðu sem enginn hringir í gegnum eru einskis virði. Það er bara þannig. Þýðir ekki að halda því fram að koparlínur sem enginn notar séu mikils virði. Ég held að þingmenn geti flett því upp í eigin huga hversu oft er hringt í farsíma þeirra og hversu oft í heimilissíma. Ætli sé ekki að verða svo hjá mörgum fjölskyldum landsins að það sé um tíu sinnum oftar hringt í farsíma en heimilissíma. Þá getum farið að spyrja okkur: Hvers virði eru koparlínurnar? Síminn þarf örugglega að gera þær meira virði með því að koma um þær öðru efni en þær hafa verið notaðar fyrir til dagsins í dag, margmiðlunarefni, sjónvarpsefni og tölvutengdu efni, m.a. til að halda verðgildi þeirra.

Við leggjum ljósleiðara fram og til baka um byggðir landsins, erum með örbylgjusendingar og koparlínurnar, þær mega ekki gleymast. Einnig er komið upp, hvað heitir það, dreifikerfi Landsvirkjunar er það ekki? Þar er gervitunglatækni notuð og hefur verið reist mastur í Bláfjöllum og mig minnir að dreifingin sé frá Vík í Mýrdal og vestur á Snæfellsnes. Miðað við það sem ég hef lesið væri sennilega hagkvæmast að byggja upp dreifikerfi með þeirri tækni, að reisa nokkur möstur um landið og opna með því fyrir mögulegt efni, tugi eða hundruð sjónvarpsrása með þeirri dreifingarleið einni. Þetta hefur a.m.k. verið sagt í mín eyru. Sú tækni gæti kostað á bilinu 2–4 milljarða kr. en ég tel líklegt að sú tækni sem við vinnum með í hinum fjölmörgu dreifikerfum muni, þegar upp verður staðið, kosta 20–30 milljarða kr.

Þá kemur auðvitað næsta spurning: Hver borgar? Það er auðvitað Íslendingurinn sem borgar, neytandinn. Margt er að gerast í dreifingu margmiðlunarefnis og gerist hratt. Símtöl fara í gegnum tölvu og tölvunet og margt gerist í tækniheiminum svo hratt að við sjáum það ekki fyrir, sem ekki erum menntuð á því sviði, hvert þau mál stefna. Mér virðist ljóst að að mörgu sé að hyggja í þessu efni. Versta niðurstaðan fyrir Íslendinga, alversta niðurstaða sem við gætum fengið, væri að við sætum uppi með dreifikerfi margmiðlunar og lokaða skápa, þ.e. að hver neytandi yrði að kaupa sér kassa að Stöð 2, kassa að Skjá einum og kassa að öðrum sjónvarpsstöðvum. Fyrir það mundu menn borga fyrir hvern kassa 7–8 þús. kr. á mánuði í aðgangsgjald. Svo væri það leið fátæka mannsins. Hann ætti kost á að horfa á ríkissjónvarpið og ríkisdreifinetið. Kannski gæti þróunin orðið í þá átt og ég vil beina því til hæstv. samgönguráðherra hvort ekki sé ástæða til að staldra svolítið við og velta því fyrir sér á hvaða vegferð við erum í þessum málum.

Þær upplýsingar sem sífellt bætast við um þessi mál við umfjöllun um það benda til að við þurfum að skoða þau vandlega. Niðurstaðan gæti einfaldlega orðið sú að íslenskir borgarar greiði miklu meira fyrir aðgang að og notkun á dreifirásum en þegnar landanna í kringum okkur. Það skyldi þó ekki vera, ef menn sjá ekki að sér í þessu efni, að við sætum uppi með afar dýran aðgang að margmiðlunarefni. Þá yrðu það ekki íslensk fyrirtæki sem Íslendingar versluðu við heldur einfaldlega erlend fyrirtæki sem selja efnið um gervihnetti. Íslendingar fengju þannig það efni sem þeir vilja horfa á gegn því verði sem þeir vilja greiða.

Þetta vildi ég segja almennt um þessi mál og hina hröðu þróun. Ég held að við munum ekki skaðast á að líta á breytingartillögur okkar og samþykkja þær. Við höfum þá tíma fram til 1. janúar 2007 til að sjá hve örar breytingarnar verða. Þær hafa verið örar á síðustu tveimur árum, svo örar að við fylgjum þeim ekki eftir. Ég held það væri mikil skynsemi í því.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta að svo komnu máli. Maður hefur fengið upplýsingar um fjölmargt sem maður hefði getað gert að umræðuefni. Menn þurfa að spyrja sig um margt í því sambandi. Á sínum tíma var skipuð nefnd varðandi fjölmiðladreifinguna. Hún mótaði ákveðna stefnu sem ég held að samgönguráðuneytið hafi samþykkt en mér sýnist hins vegar, í stað þess að við tryggjum eitt eða jafnvel tvö mjög góð dreifikerfi sem allir eigi aðgang að, öll fyrirtæki, þá verði mörg fyrirtæki og margar dreifirásir með tilheyrandi kostnaði. Ég held að þriðja kynslóð farsímans, miðað við þann áhuga sem símafyrirtækin hafa sýnt, sé ekki kostur sem við eigum að flýta okkur mikið við.