131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[15:50]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra, kannski má líta á þetta sem ákveðna þversögn. En ef sett væri sem markmið eða skilyrði til að fá rekstrarleyfi og til að setja upp þetta kerfi að það næði til 100% landsmanna og ákveðinn frestur væri gefinn til þess að gera það á einhverju árabili, á fjögurra, fimm eða innan við tíu ára bili, og leyfið væri skuldbundið því að þetta yrði gert þannig, og að þetta væri talið svo þjóðhagslega mikilvægt og samfélagslega mikilvægt að þetta væri einn af hornsteinum grunnalmannaþjónustu í landinu, þá er ég alveg sammála hæstv. ráðherra að málið væri í allt öðru ljósi og að ekki væri óeðlilegt að skoðað yrði að tekið væri á þessu sameiginlega. Þá á ég ekki bara við notendur, heldur að öll þjóðin eða ríkið og samfélagið sameinaðist um að gera slíkt átak og þjónustan yrði út um allt land. Ef þetta væri skilgreint sem grunnalmannaþjónusta, algjör grundvöllur, þá er ég alveg sammála því að það ætti að gera þetta.

En eins og þetta birtist í frumvarpinu er aðeins ætlunin að þetta nái til að lágmarki 60% íbúa sem þýðir að þetta nær einungis til þéttbýlisstaðanna og örfárra þéttbýlisstaða utan höfuðborgarsvæðisins — þá má telja á fingrum annarrar handar — en annarra ekki. Reynslan erlendis frá sýnir að útbreiðslan og notkunin er langt undir væntingum og alls ekki hægt að flokka hana undir grunnalmannaþjónustu. Því sé ég enga ástæðu til þess að aðrir aðilar en þeir sem munu nota hana eigi að greiða fyrir hana.