131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[15:52]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hérna fer enn og aftur fram ágæt umræða um þriðju kynslóð farsíma. Það var fróðlegt að taka þátt í vinnu samgöngunefndar um þetta mál en ég held að öllum sem þar sátu hafi komið mjög á óvart áhugaleysi talsmanna símafyrirtækjanna sem komu á fund okkar og greindu frá viðhorfum og áherslum sínum hvað varðar lagasetningu um þriðju kynslóð farsíma. Það stóð svolítið upp úr, eins og kom fram í umræðu félaga minna í dag, að lítið sem ekkert virtist reka á eftir því af þeirra hálfu að lögin yrðu sett núna eða tækju gildi og ekkert benti til þess að það væri alveg á næstunni sem þeir hefðu áhuga á að fara í slíkan rekstur. Það væri einfaldlega svo langt í land, það væri önnur tækni sem gæti komið þarna að líka og reynslan erlendis frá sýndi, bæði frá Bretlandi og annars staðar, að töluvert langt væri þangað til þetta kæmi að fullu í gagnið.

Við höfum farið vítt og breitt í umræðum um samskiptamálin almennt. Að útbreiðsluskyldan sé einungis 60% en í breytingartillögunni lagt til að hún verði 75% beinir kastljósinu að því að samskiptamálin eru orðin að grunngæðum í samfélaginu í dag. Það telst því til grunngæða að hafa aðgengi að ákveðnum samskiptagæðum rétt eins og ákveðnum gæðum samgangna. Það er að verða eitt helsta mál landsbyggðarinnar að hafa upp á að bjóða aðgang að samskipta- og gagnaflutningsþjónustu sem stenst með einhverjum hætti samkeppni þar sem best gerist í þéttbýlinu á höfuðborgarsvæðinu þó að ekki sé endilega verið að tala um það sama, heldur eitthvað sem stenst samanburð og samjöfnuð. Því ef svo er ekki þá eru þau svæði einfaldlega ekki samkeppnishæf, þau verða útundan og eru ekki valkostur fyrir yngra fólk sem er að velja sér búsetu til framtíðar. Það er einfaldlega þannig að hafi fólk ekki aðgang að lágmarksgagnaflutningsþjónustu, GSM-þjónustu og öðrum öngum þeirrar samskiptabyltingar sem átt hefur sér stað hér á landi og í heiminum á síðustu árum, þá er það svæði hvorki fýsilegt né fyllilega boðlegt til búsetu. Það er bara þannig að í dag eru það tvö mál sem skipta öllu máli þegar kemur að samkeppnishæfi og búsetuskilyrðum, það eru samgöngumálin, samskiptamálin, auk svo þjónustunnar hvað varðar leikskóla, skólagöngu o.fl., en það er annað mál. Samskiptin og samgöngurnar eru algjört grundvallaratriði. Séu þessar byggðir ekki í stakk búnar til að bjóða upp á ákveðið aðgengi að gagnaflutningum, þá eru þær ekki boðlegar á þeim samkeppnismarkaði.

Þess vegna er sú breyting sem lögð er til í breytingartillögu þriggja hv. þingmanna, félaga minna úr minni hluta í samgöngunefndinni, um að útbreiðsluskilyrði verði 75% í stað 60% mjög mikilvæg. Það er mikilvægt að þegar og ef þetta kemur einhvern tímann að fullu í gagnið, þá verði það þannig að fyrirtækjunum verði gert skylt að sjá til þess að útbreiðslan nái líka til hinna dreifðu byggða. Og ef þriðja kynslóðin kemst í gagnið komi ekki upp að einungis þéttbýlustu svæðin hafi upp á slíkt að bjóða því þetta verður veruleg breyting á símaþjónustu. Bandbreidd þriðju kynslóðarinnar er svo miklu meiri en þeirrar kynslóðar farsíma sem við notum í dag að það verða mjög miklar breytingar, bithraðinn verður svo miklu, miklu meiri og hærri í þriðju kynslóðinni. Það er mikilvægt að landsbyggðin og hinar dreifðu og fámennari byggðir hafi einnig aðgengi að þessum samskiptamáta rétt eins og þéttbýlið. Þarna verður ríkisvaldið einfaldlega að koma að, samskipti og aðgengi að grundvallargrunngæðum samskiptaþjónustunnar eru á meðal þeirra gæða sem samfélag verður að bjóða upp á í dag, annars er einfaldlega verið að loka á það samfélag. Það er einfaldlega ekki þátttakandi í nútímanum.

Ég ætla einnig að koma inn á annað mál sem ég og fleiri hv. þingmenn, svo sem hv. þm. Jóhann Ársælsson, höfum áður nefnt við umræðu um þriðju kynslóð farsíma. Það er sú leið sem hér er lögð til að verði farin við útboð eða sem sagt úthlutun réttindanna til að reka þriðju kynslóð farsíma. Þar hefur okkur greint verulega á. Ég hef verið mikill talsmaður þess að nokkurs konar uppboðsleið verði farin í stað lokaðs útboðs og algjört grundvallaratriði sé að sérákvæði verði í lögunum, sem tryggi það að bjóði tveir jafngildir aðilar í þessi réttindi til að reka þriðju kynslóð farsíma, þá fari fram uppboð. Það fari fram opið uppboð þannig að það verði ekki geðþóttaákvörðun ráðherra eða ráðamanna sem skeri úr um hvor þessara jafngildu aðila hljóti réttindin. Hér er um að ræða mjög verðmæt réttindi. Við eigum að sjálfsögðu að gæta þess að allir hafi sama rétt til að nálgast takmarkaðar auðlindir þjóðarinnar; að þjóðareigninni sé ráðstafað þannig að réttlætis og sanngirni sé gætt og allir hafi sömu möguleika á að nálgast þær. Til að koma í veg fyrir pólitíska spillingu og pólitískar geðþóttaákvarðanir í þessum málum, eins og við úthlutun annarra takmarkaðra gæða, þá er mjög mikilvægt að setja sérákvæði í lögin sem kveði á um að uppboð skuli fara fram bjóði tveir jafngildir aðilar og ekki fæst úr því skorið að annar sé augljóslega hæfari en hinn og betur í stakk búinn til að hljóta þau réttindi að reka þriðju kynslóð farsíma. Þá verði farin uppboðsleið þannig að ekki ráði geðþótti þess hæstv. ráðherra sem á þeim tíma situr í ráðuneyti samgöngumála eða manna á hans vegum. Í þessu er ég í engu að beina orðum mínum sérstaklega til þess ráðherra hæstv. sem nú situr, þetta er almenn regla.

Þetta er spurning um almennt gagnsæi í leikreglum samfélagsins. Þegar við göngum þannig um að við úthlutun slíkra réttinda á almennum auðlindum þjóðarinnar, takmörkuðum auðlindum þjóðarinnar, þá förum við þá leið sem opnust er og gagnsæjust svo sá sem hlýtur réttindin til að nýta auðlindina fái það vegna verðleika sinna og stöðu, það séu sem sagt verðleikar hans og hæfi til að hljóta það sem ráði valinu en ekki pólitískur geðþótti. Það sé ekki um pólitísk bitlingakaup eða önnur slík undirmál að ræða, heldur séu þessi mál uppi á borðinu og gerð gagnsæ og fram fari útboð á milli jafngildra aðila um hver verður fyrir valinu.

Það hefur verið varað mjög við því að fara uppboðsleiðina sem ég er að mæla hér með að verði farin, alla vega að einhverju leyti, þ.e. að uppboð fari alla vega fram í lokin til að velja á milli ef um er að ræða jafngilda aðila. Það hefur verið varað við þessari leið út af því að sagt er að sporin hræði, að þessi leið hafi verið farin í Evrópulöndum, t.d. Bretlandi og Þýskalandi, þar sem menn fóru mjög geyst og buðu mjög háar fjárhæðir í leyfi til að reka þriðju kynslóð farsíma. Fyrirtækin fóru mjög illa út úr því, töpuðu mjög miklum fjármunum. En á þeim tíma var háttalag manna hvað varðaði fjarskiptatæknina og fjarskiptabyltinguna á þá leið að hagnaðarvonin sem menn töldu að væri að finna í þessu þá þegar og með svo hröðum hætti, glapti marga og örugglega fyrirtæki sem buðu þessar himinháu fjárhæðir í tíðnisviðin. Ekki var hægt að standa undir því með nokkru móti eða ná því til baka.

Virðulegi forseti. Nú eru breyttir tímar að mínu mati og engin ástæða er til að ætla að þeir sem bjóða í þriðju kynslóðina hjá okkur, þegar að því kemur, gangi fram svo glannalega að það verði fyrirtækjunum ofviða að standa undir gjaldinu og öllu sem því fylgir.

Ég held að engin ástæða sé til að ætla sérstaklega að svo fari. Reyndar er hægt að fullyrða að engin ástæða er til þess að hræðast því eftir viðtöl okkar í samgöngunefnd við forustumenn símafyrirtækjanna hérlendis þá er nú spenningurinn alveg í lágmarki að fara út í rekstur á þriðju kynslóð farsíma og mjög litlar líkur eru á því að uppboð leiði til þess að fyrirtækin reisi sér hurðarás um öxl og fari út í glannalegar fjárfestingar, glannaleg uppboð þannig að þau ráði svo ekki við það. Ég held að engin ástæða sé til að ætla það.

Í frumvarpinu eru taldar upp nokkrar leiðir og útskýrðar ágætlega, t.d. útboð þar sem ótilteknum fjölda er með auglýsingu gefinn kostur á að gera tilboð. Það er kallað hér almennt útboð. Þessi aðferð er algengust útboðsaðferða, er sagt hér. Öllum er heimil þátttaka og getur verkkaupi tekið hvaða tilboði sem er eða hafnað þeim öllum. „Opinberir aðilar hafa þó“ — segir hér, með leyfi forseta — „ekki frjálsar hendur við val á tilboði og ber þeim að taka hagkvæmasta tilboði samkvæmt útboðsreglum.“

Síðan er rakin hin lokaða útboðsleið og hin almenna.

Ég held að því opnari og gagnsærri sem leiðin er sem við förum því betra, eins og ég rakti hérna áðan. Það er alla vega algjört grundvallaratriði að við afgreiðslu frumvarpsins verði samþykkt hérna sérákvæði um uppboð, þ.e. að um sé að ræða tvo jafngilda aðila sem bjóða í verkið.

Nú hef ég ítrekað þá pólitísku skoðun mína að þetta sé algjört grundvallaratriði í allri umgengni okkar við takmarkaðar auðlindir í eigu þjóðarinnar. Það er alveg sama hvort við ræðum sjávarútvegsmál, auðlindir í jörðu, fallvötn eða fjarskipti. Við eigum alltaf að fara þá leið að sem gagnsæjast sé að farið við að úthluta aðgengi að hinum staðbundnu og takmörkuðu gæðum og að þar ráði verðleikar manna og hæfi til að nýta auðlindina en ekki pólitísk spilling af neinu tagi. Ég ítreka það hér enn og aftur.

Ég vil benda á það hér í lokin af því við erum að ræða einnig um fjarskipta- og samgöngumálin almennt, að algjörlega óboðleg staða er uppi á landsbyggðinni og í smærri byggðarlögum hvað varðar gagnaflutninga. Sums staðar í hinum dreifðu byggðum eru sjálfstæð lítil fyrirtæki að innleiða örbylgjusendingar þannig að íbúar þeirra svæða hafi aðgengi að einhvers konar háhraðaneti og geti tekið þátt í nútímanum. Hafi fólk ekki aðgang að háhraðanettengingum, er það ekki þátttakendur í nútímasamfélagi og hefur ekki jöfn tækifæri á við aðra íbúa landsins til að nýta þessa byltingu, til að nýta þetta sér til skemmtunar, náms eða atvinnu. Byggðirnar eru þá einfaldlega settar af.

Ég hef margoft skorað á hæstv. samgönguráðherra að beita sér fyrir úrbótum á þessum málum. Það hef ég gert í fyrirspurnarformi. Ég hef lagt fram þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að við tryggjum að allir íbúar Íslands hafi aðgang að lágmarksháhraðaneti hvernig sem það er útfært. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson kom ágætlega inn á það hérna áðan að þetta gerist allt svo hratt. Hlutirnir eru í svo örri þróun. Það eru svo miklar breytingar hvort sem við erum þá að tala um koparlínur, ljósleiðara, örbylgjusendingar. Það er útfærsluatriði. Við eigum á hinu háa Alþingi að hafa forgöngu um það að eins og af öðrum grunngæðum samfélagsins hafi allir íbúar landsins, eins hinna dreifðu byggða og smærri byggðarlaga, aðgang að háhraðanettengingum þannig að þeir geti nýtt sér þessa tækni eins og aðrir.

Það er ekki hægt að réttlæta það t.d. að ríkissamskiptafyrirtækið Síminn sé að spila með eigur almennings svo nemi hundruðum milljóna í misviturlegum fjárfestingum t.d. í fjölmiðlafyrirtækjum á meðan svo er um hnúta búið að GSM-göt eru hér um allt land í GSM-kerfinu og stór hluti landsbyggðarinnar hefur ekki aðgengi að háhraðanettengingu. Þetta er algjörlega óboðlegt ástand og þetta er pólitískt úrlausnarefni. Þess vegna tek ég það upp hér í umræðum um samskiptamálin og fjarskiptamálin almennt að það er skylda okkar að hafa forgöngu að því að tryggja að hér sé úr unnið þannig að þessi staða verði ekki uppi. Hvað varðar fjölmiðlun gagna og bandbreidd þá verða íbúar hinna dreifðu byggða og smærri byggðarlaga að búa við sömu kosti og hér eru. Það er skylda hins opinbera, að mínu mati — það er mín pólitíska skoðun — að koma þarna að beint og óbeint þannig að það sé tryggt að fyrirtæki á fjarskiptamarkaði veiti þessa þjónustu.

Ég ætla aftur og enn að skora á hæstv. samgönguráðherra að hafa forgöngu um að úr þessu sé bætt og að Alþingi Íslendinga vinni í þessum málum í vetur þannig að fyrir vordaga getum við afgreitt frá þinginu mál sem tryggi að allir íbúar Íslands hafi aðgengi að lágmarksháhraðanettengingu hvernig svo sem hún er útfærð, hvernig sem að málum er staðið á þessum og hinum staðnum. Við erum ekki að tala um strengjalagnir um allar byggðir. Örbylgjan og ýmsir aðrir kostir eru til staðar. Þetta er hins vegar brokkgengt, skrykkjótt og misgott þar sem verið er að setja þetta upp. Sums staðar er þetta alveg bærilegt, sums staðar þokkalegt. En annars staðar er þetta einfaldlega ekki til staðar. Úr þessu þurfum við að bæta og nota fjármunina, auðævin sem landsmenn hafa sjálfir skapað í Símanum, áður Landssímanum, til að bæta aðgang allra Íslendinga að samgöngumálum. Það er ekki hlutverk þess ríkisfyrirtækis að spila með peningana og auðinn sem við Íslendingar allir höfum byggt upp í okkar eigin fyrirtæki. Skylda þessa fyrirtækis, ríkisfyrirtækis sem við eigum öll við samfélagið er að greiða samfélaginu það til baka með því að tryggja aðgengi allra Íslendinga að þessari grunnþjónustu.

Þessu tvennu vildi ég sérstaklega koma að í umræðum um þessi mál í dag. Annars vegar á að fara leið uppboðs bjóði tveir jafngildir aðilar í réttindin til að reka þriðju kynslóðar farsímakerfi á Íslandi. Það á að fara þá leið til að tryggja að gagnsæi og réttlátar reglur ráði því hver hljóti gæðin og skyldurnar að sjálfsögðu um leið. Þetta er algjört grundvallaratriði í öllum aðgangi, að mínu mati, að auðlindum þjóðarinnar, algjört grundvallaratriði til að tryggja að enginn velkist í vafa um að rétt sé að málum staðið en pólitísk hentistefna, bitlingar eða önnur slík spilling ráði ekki för.

Einnig vil ég, fyrst við erum að ræða um gagnaflutninga almennt og gæði þeirra á Íslandi, skora á samgönguráðherra að beita sér fyrir þessu. Þessi mál eru algjörlega óviðunandi eins og staðan er í dag. Ég trúi ekki öðru en að hæstv. ráðherra vilji hafa forgöngu um að bæta úr hið bráðasta. Þetta tvennt eru stóru verkefnin, annars vegar að breyta því þannig að farin verði leið uppboðs sé um að ræða tvo jafngilda aðila og hins vegar að tryggja dreifðu byggðunum og smærri byggðarlögunum aðgang að háhraðanettengingu þannig að sómi sé að og þær byggðir séu ekki afsettar, en þær eru það hafi þær ekki upp á þetta að bjóða. Það er einfaldlega verið að setja byggðirnar af. Hlutirnir gerast svo hratt að hafi þær ekki upp á þetta að bjóða og aðgang að þessum réttindum á allra næstu árum þá mun mjög molna undan þessum byggðarlögum og þau munu eiga mjög erfitt uppdráttar á næstu árum.