131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[16:27]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er nú á þeirri skoðun að það vanti svolítið upp á að þetta sé gagnsætt fyrirkomulag. Ég mótmæli því eiginlega að verið sé að nota orðið útboð. Þetta er miklu frekar einhvers konar fegurðarsamkeppni sem þarna á að fara fram, þar sem meiningin er að stjórnvöld búi til einhvers konar resept fyrir þá sem eru fyrir á markaðnum í kringum þá þjónustu sem á að bjóða. Hæstv. ráðherra talaði um að menn skipuðu mönnum ekki fyrir á markaðnum. En hann kemur síðan hér og segir: Nú er ég búinn að ákveða það að kominn sé tími til að menn taki nú þennan poka á bakið sem hér er fram kominn, og telur að núna sé rétti tíminn. Nú eiga sem sagt þessi fyrirtæki sem eru á markaðnum að skuldbinda sig til þess að bjóða upp á þessa þjónustu, skuldbinda sig til tiltekinna ára að bjóða upp á þá þjónustu og keppa um hana. Hæstv. ráðherra telur að með því muni þau verða verðmætari. Það er ekki endilega víst að svo verði. Það gæti nú vel verið að einhver hefði efasemdir um það að skuldbindingar af þessu tagi sem þarna væri verið að gera inn í framtíðina mundu endilega skila fyrirtækjunum miklum arði. Þá þurfa menn auðvitað að vita eitthvað um hvernig þessi þróun mun ganga fram.

Mér finnst þess vegna að það sé miklu skynsamlegra að fyrirtækin sjálf ákveði það hvað þau telja þessa hluti mikils virði og leggi á það mat heldur en það sé gert af opinberum aðilum með þeim hætti sem hér er stofnað til. Mér finnst það lágmarkið ef að því dregur að sambærilegir aðilar bjóði í svona þjónustu, að hægt sé að gera upp á milli þeirra með einhverjum skynsamlegum hætti.