131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Kosningar til Alþingis.

26. mál
[16:57]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Eitt af helstu málum þessara missira eru stjórnarskrárbreytingar sem verða mættu til að færa lýðræðisfyrirkomulag okkar til réttlátari og betri hátta. Allt sem er í þeirri þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu get ég tekið heils hugar undir, enda hafa stefnumið okkar jafnaðarmanna um margra ára og áratuga skeið verið þau að jafna atkvæðisréttinn í landinu og gera landið að einu kjördæmi. Við höfum flutt um það þingmál og lagafrumvörp og fleira sem að því lýtur. Ég tek því heils hugar undir efni þessa máls og ætlaði að koma sérstaklega að því varðandi þær stjórnarskrárbreytingar sem fram undan eru á næstu mánuðum og missirum að ég tel það algjört grundvallaratriði að út úr þeirri vinnu komi sú breyting að landið verði gert að einu kjördæmi og atkvæðisréttur allra Íslendinga verði jafnaður til fulls.

Atkvæðisrétturinn er hluti mannréttinda okkar. Það að „víla og díla“ um slík mannréttindi undir þeim formerkjum að um sé að ræða byggðamál og það að bæta hag þeirra byggða sem lakast standa er algjör firra. Fráleitt er að halda því fram að byggðastefnan eigi að birtast okkur með því að ganga á mannréttindi annarra Íslendinga. Það er mjög auðvelt að færa rök fyrir því að sú kjördæmaskipan sem við höfum búið við á liðnum áratugum, hvort heldur er gamla kjördæmaskipunina sem var breytt fyrir síðustu kosningar eða hin nýja kjördæmaskipan, með sex kjördæmunum sem við búum við núna, hafi komið byggðunum að gagni að einhverju leyti.

Ég held að hægt sé að halda því fram að kjördæmaskipanin gamla, það að okkar fámenna og strjálbýla stóra landi sé skipt upp í kjördæmi, hvort sem þau eru sex, átta eða fleiri, vinni gegn hagsmunum hinna ýmsu byggðarlaga. Það getur vel verið að sum byggðarlög „eignist“ þingmenn, ef svo má segja, sem dragi meira í bú en aðrir á einhverju tilteknu tímabili, en hægt er að fullyrða að í það heila tekið vinnur þetta gegn hinum dreifðu byggðum. Það vinnur gegn byggðunum að draga alþingismennina 63 í einhverja dilka, í einhver lið þannig að þeir séu að vinna sérstaklega fyrir ákveðið landsvæði en ekki fyrir hagsmuni annarra landsvæða.

Landið allt á að vera eitt kjördæmi. Atkvæðisréttur allra Íslendinga á að vera jafn af því að hann er mannréttindi. Hann er jafnhelg mannréttindi og annað sem við skilgreinum óvefengjanlega sem svo. Mannréttindum er ekki skipt upp og þeim er ekki skipt út fyrir eitthvað annað. Þeim er ekki skipt út eða upp í eitthvað sem stjórnvöld einhverra tíma hafa skilgreint sem byggðastefnu af því að sú byggðastefna er þá bæði röng, ranglát og á misskilningi byggð, enda hefur það að miklu leyti horfið út úr umræðunni að það sé inntak og kjarni byggðastefnunnar á Íslandi, inntakið í því að halda Íslandsbyggðum öllum í byggð, að atkvæðisrétturinn sé ójafn og ranglátur. Það eru fáir sem halda því fram, æ færri, þó svo að einhverjir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar standi vörð um það.

Sú kjördæmabreyting sem gerð var síðast voru mistök, það var vond kjördæmabreyting. Búin voru til flennistór landsvæði sem tilteknum hluta alþingismanna var gert að vera í og höfuðborgarsvæðinu skipt upp með afkáralegum hætti í þrjú kjördæmi. Ekkert af þessu átti rétt á sér, þetta voru mistök. Og ég vona að sú nefnd sem hefur nýhafið störf, stjórnarskrárnefndin, leggi það til sem meginbreytingu á stjórnarskrá okkar að landið verði allt gert að einu kjördæmi og atkvæðisrétturinn þannig jafnaður til fulls.

Gera þarf margar fleiri breytingar á stjórnarskránni eins og að taka upp ákvæði um að tiltekinn hluti atkvæðisbærra manna á Íslandi geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál, beint lýðræði. Það á að efla og auka beint lýðræði með þeirri grundvallarbreytingu á stjórnarskránni sem ég nefndi þar. Það er mál sem er líka mjög mikilvægt til að endurreisa raunverulegt lýðræði á Íslandi af því að hægt er að halda því fram með rökum að það hafi fjarað svo undan raunverulegu lýðræði, þar sem vilji og réttur fólksins nær fram að ganga í öllum eða sem flestum málum, að grípa verði til afgerandi ákvarðana til að endurreisa raunverulegt lýðræði á Íslandi og gæða það nýju líf. Það verður fyrst og fremst gætt nýju lífi með því að efla beint lýðræði með ákvæðinu sem ég nefndi áðan inn í stjórnarskrána við hliðina á og auk málskotsréttar forseta Íslands í mikilvægum málum. Það á ekki að skipta þjóðaratkvæðisákvæðinu út fyrir málskotsréttinn. Saman efla þessi tvö ákvæði raunverulegt lýðræði í landinu og tryggja að vilji fólksins og verðir fólksins geti haft afskipti af málum þurfi svo að vera, eins og við upplifðum í fyrrasumar þegar málskot forseta Íslands á fjölmiðlalögunum var algjört grundvallaratriði í lagasetningarferlinu til að afstýra pólitísku voðaslysi. Setja á inn ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu, beint lýðræði, auk málskotsréttar forseta Íslands. Það á alls ekki að skipta því út.

En eftir stendur sú meginkrafa sem lögð er til í þeirri þingsályktunartillögu sem við ræðum hér, sem hv. þingmenn Frjálslynda flokksins flytja, og ég styð eindregið allt inntak hennar. Það var ágætlega rakið af 1. flutningsmanni hennar, hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni, áðan að það er grundvallaratriði, algjör og alveg ófrávíkjanleg krafa að mínu mati í stjórnarskrárbreytingunum, að gera Ísland að einu kjördæmi og jafna atkvæðisréttinn til fulls. Þetta hefur verið í umræðunni í mörg ár. Héðinn Valdimarsson, fyrrverandi formaður Dagsbrúnar og alþingismaður, flutti frumvarp um þetta árið 1927 og flutti mjög glæsilega röksemdafærslu fyrir því að atkvæðisrétturinn væri helg mannréttindi sem mætti ekki skerða með neinum hætti og ekki af neinum ástæðum. Það væri, rétt eins og að ganga gegn málfrelsinu, tjáningarfrelsinu og prentfrelsinu, helgur réttur, og undir það tek ég hér og vísa í það mál. Eins hefur hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson flutt um þetta mál, mjög mikilvægt mál, og vona ég að umræða vorsins sem er að hefjast núna og hefst hér í þingsölum strax á öðrum degi vorþingsins með umræðu um þessa þingsályktunartillögu um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis þar sem lagt er til að landið allt verði gert að einu kjördæmi og hinn dýrmæti lýðræðislegi réttur hvers einstaklings, atkvæðisrétturinn, verði þar með jafn og óskertur eða eins og þar segir, með leyfi forseta:

„Þar með bæru allir þingmenn jafna ábyrgð gagnvart kjósendum hvar sem búseta þeirra væri.“

Þetta er vel að orði komist hjá hv. flutningsmönnum Frjálslynda flokksins (Forseti hringir.) og styð ég þetta mál eindregið.