131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Kosningar til Alþingis.

26. mál
[17:20]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það kann að virðast svolítið undarlegt að ræða tillögu eins og þessa á sama tíma og búið er að setja af stað nefnd til að endurskoða stjórnarskrána þar sem allt er undir en þó er full ástæða til þess að ræða þetta mál. Það er nefnilega greinilegt að skiptar skoðanir eru um það hvort breyta eigi landinu í eitt kjördæmi eða ekki.

Mér finnst að reynslan af fyrirkomulaginu sem nú er í gildi hafi þegar sýnt okkur að það er ekki frambúðarfyrirkomulag. Ég minni á að ef menn ekki breyta fyrirkomulaginu núna í meðförum þeirra tillagna sem vonandi koma til afgreiðslu á þessu kjörtímabili frá nefnd þeirri sem sett hefur verið af stað, ef menn munu þar ekki vera með í farteskinu tillögur um breytingar á lögum um kosningar til Alþingis og þar með kjördæmaskipunina mun sú breyting ekki ganga fram fyrr en fyrirkomulagið hefur verið í gildi að öllum líkindum í 12 ár. Það er að mínu viti allt of langur tími með það fyrirkomulag sem langflestir telja ekki viðunandi. Þess vegna er svo mikilvægt að slegist verði fyrir því að breytingin verði tekin til alvöru umfjöllunar í stjórnarskrárnefndinni og ekki bara þar, því ég legg áherslu á að alþingismenn eru ekki best færir um að meta það einir hvernig slíkt fyrirkomulag eigi að vera, hvernig stjórnarskráin eigi að líta út, hvernig þær reglur eigi að vera sem þeir eiga að starfa eftir. Það er alveg gríðarlega mikilvægt að fólk komi þar að, almenningur í landinu ríði til Alþingis og setji mark sitt á þessar umræður allar og að menn finni virkilega fyrir tillögum og hugmyndum almennra borgara í þeirri umfjöllun sem fram undan er.

Þegar menn velta fyrir sér hvaða áhrif það hefði að breyta landinu í eitt kjördæmi þá segi ég: Ég er sannfærður um að þeir sem hafa áhyggjur af landsbyggðinni ættu að vera rólegri, vegna þess að ef allir þingmenn teldu sig hafa skyldur við allt landið og væru ekki króaðir af að stórum hluta til á suðvesturhorninu vegna kjördæmaskipunarinnar sem er mundu þeir, allir sem einn, vinna að verkefnum úti á landi því auðvitað vilja allir landi sínu vel og vilja rækja starf sitt. Ég efast ekki um að þingmenn hvar sem þeir byggju og væru settir fram mundu vilja vinna að málefnum landsbyggðarinnar. En það er hreinlega komið í veg fyrir það með því fyrirkomulagi sem er.

Það er ekki svo auðvelt og það höfum við séð í gegnum tíðina að flokkar sem hafa t.d. ekki náð því að fá fulltrúa sína inn í hin einstöku kjördæmi, bæði í þessu fyrirkomulagi og því sem á undan var, hafa nánast engan kost átt á því að taka þátt í starfi hinna einstöku kjördæma sem segir auðvitað sitt um hve fyrirkomulagið hefur verið óeðlilegt í gegnum tíðina. Væri landið eitt kjördæmi gætu þingflokkarnir séð til þess að landinu væri sinnt af hendi viðkomandi flokks. Ég hef ekki áhyggjur af því að þeir stjórnmálaflokkar sem bjóða fram til Alþingis mundu ekki stilla upp með þeim hætti að það væru fulltrúar sem fólkið teldi sína hvar sem væri frá landinu, því auðvitað mun fólk ævinlega horfa til þess hvaða fólk er í boði og fulltrúar fyrir stjórnmálaflokka og hvort þeir hafi sinnt þeim svæðum sem um er að ræða.

Ég vil ræða um annað í þessu samhengi. Ég tel mjög mikilsvert að tengja þessa þróun eflingu sveitarfélaganna. Ég tel að það átak sem nú er í gangi til að stækka sveitarfélögin sé að vísu ekki nógu öflugt til að gera það sem þarf en það er þó vonandi skref í áttina. Við þurfum að efla sveitarfélögin enn meir og gera Alþingi fyrst og fremst að löggjafarsamkomu, færa meiri völd og áhrif til sveitarstjórnanna og það á að vera hluti af þeim breytingum sem við tölum um þegar við tölum um að gera landið að einu kjördæmi. Ég vil helst koma því hér til skila að umræðan er gagnleg til að vilji manna komi fram til þess að tekið verði á þessu máli líka hvað varðar endurskoðun á stjórnarskránni og ég ætla satt að segja að vona að í þeirri endurskoðun hlusti menn á fólkið í landinu, hlusti á hvað fólkið telur athugavert við fyrirkomulagið núna og verði ekki allt of uppteknir af sjálfum sér í stjórnmálaflokkunum og þeim hagsmunum sem þeir gæta sem slíkir, því auðvitað ætti þetta að vera þannig að Íslendingar riðu til þings öðru hverju til að setjast yfir það hvaða reglur eigi að gilda á Alþingi. Þá eiga þeir ekki að ráða neitt meiru en aðrir sem hafa verið kosnir þar til húsa, heldur eiga almenn sjónarmið úr samfélaginu að ráða um það hvaða reglur verða á settar.

Ég ætla ekki að halda lengri ræðu en þetta. Ég taldi ástæðu til þess að koma upp. Samfylkingin hefur lagt fram tillögur af því tagi að gera landið að einu kjördæmi og Frjálslyndi flokkurinn er með sínar tillögur. Ég hef hitt fleiri þingmenn eftir síðustu kosningar, þó nokkuð marga úr stjórnarflokkunum, sem hafa sagt við mig að þeir væru búnir að átta sig á því að fyrirkomulagið væri ekki skynsamlegt til frambúðar sem við sjáum núna. Hvað sjáum við núna í Norðvesturkjördæmi? Fyrir liggur að þar verður fækkað úr tíu þingmönnum í níu og þannig mun það halda áfram ef það fækkar á landsvæðunum. Landsvæðin eru allt of stór til að þingmenn geti sinnt þeim sem skyldi og ég er sannfærður um að ef landinu væri breytt í eitt kjördæmi væri hægt að gera betur en hægt er með því fyrirkomulagi sem gildir núna.