131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Svör við fyrirspurnum.

[13:36]

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Ársælssyni fyrir að vekja athygli á þessu máli, hvað varðar slælega afgreiðslu fyrirspurna sem á sér oft stað á hinu háa Alþingi. Ég get nefnt sem dæmi að sjálf hef ég lent í því í tvígang á þessum vetri að fá ekki svar við fyrirspurnum. Tvær fyrirspurnir liggja fyrir frá mér, önnur frá því í október til ráðherra Hagstofu Íslands sem hefur ekki enn verið svarað og sú sama fyrirspurn lá inni í allan fyrravetur án þess að vera svarað. Sömuleiðis finnast mér hafa verið brögð að því hjá hæstv. ráðherrum að þeir velji sér þægilegustu fyrirspurnirnar eins og bestu molana upp úr konfektkassa í stað þess að taka þær í eðlilegri röð, eins og vera ber.

Ég get tekið skýrt dæmi af hæstv. menntamálaráðherra sem hefur ástundað þessi vinnubrögð. Ég tek undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram á þau og fer fram á að þetta mál verði tekið upp í forsætisnefnd hið allra fyrsta svo að einhverju skikki verði komið á það. Fyrirspurnirnar eru yfirleitt þess eðlis að við þurfum að fá svör við þeim sem fyrst. Það er ekki boðlegt fyrir okkur þingmenn sem setjum fram þessar fyrirspurnir að mánuðum saman og jafnvel eins og dæmi eru um, á annað ár, sé þeim ósvarað í þinginu. Ég fer fram á að þetta verði tekið upp í forsætisnefnd og skikki komið á þessi mál.