131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

171. mál
[13:46]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég fagna bara þeirri áherslu sem hv. þingmenn hér hafa lagt á þetta eitt stærsta baráttumál Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Þetta var einmitt eitt af stærstu kosningamálum okkar, gjaldfrjáls leikskóli, og fínt að hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson skuli einmitt fylgja þessu eftir af svona miklu afli. Ég fagna hinum góðu undirtektum sem þetta mál fær hér.

Auk þess eru allir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flutningsmenn þingsályktunartillögu um samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga um gjaldfrjálsan leikskóla, þingmál á þskj. 25., 25. mál, eitt af fyrstu málunum sem voru lögð fram á þinginu í haust en hefur ekki enn fengist rætt. Mér þykir því einsýnt af þeim miklu og öflugu undirtektum sem þetta mál hérna fær að það komist sem allra fyrst á dagskrá, þ.e. ítarleg tillaga til þingsályktunar um hvernig megi útfæra gjaldfrjálsan leikskóla (Forseti hringir.) ásamt greinargerð, þannig að við getum tekið efnislega umfjöllun um málið og þingið fengið það svo til meðferðar, herra forseti.