131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

171. mál
[13:48]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er skrýtið að hæstv. félagsmálaráðherra sé svona óskýr í þessu máli og þyki þetta einkanlega vera menntamál. Það er engum blöðum um það að fletta að þau börn sem ekki njóta þjónustunnar í hinum frábæru leikskólum landsins eru kannski þau börn sem af félagslegum ástæðum, hæstv. félagsmálaráðherra, þurfa helst á því að halda. Það eru börn innflytjenda, börn fólks sem ekki er á vinnumarkaði, atvinnulauss fólks, fólks á bótum og fólks í félagslega erfiðri stöðu. Það er grundvallaratriði til að halda hér félagslegum jöfnuði í landinu að við leggjum áherslu á það að ekki sé keypt forskot fyrir börnin á fyrstu árum ævinnar með hinum frábæra aðbúnaði í leikskólum landsins heldur tryggjum við öllum — já, með skyldu, hæstv. félagsmálaráðherra — aðgang að því frábæra starfi sem unnið er í leikskólunum að þroska barna á mikilvægustu mótunarárum ævinnar.