131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

171. mál
[13:49]

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem hér á sér stað um það að stjórnvöld fari að huga að því að við förum að gera einhvern hluta af leikskólastiginu gjaldfrjálsan. Ég er á því að síðasta ár á leikskóla eigi að vera gjaldfrjálst þar sem í raun fer nú fram kennsla. Við höfum horft á það, við sem höfum farið hér um kjördæmi okkar í kjördæmaviku, að þar fer fram gríðarlega mikið starf og í raun og veru er verið að kenna fimm ára börnum margt af því sem verið er að gera í sex ára bekk í framhaldinu.

Ég tek undir það, þetta er mikilvægt mál fyrir fjölskyldurnar í landinu. Við höfum í ríkisstjórnarflokkunum beitt okkur fyrir því að minnka jaðaráhrif skattkerfisins á þær. Reyndar hefur stjórnarandstaðan ekki getað fylgt okkur stjórnarmeirihlutanum í því efni en ég tel mjög mikilvægt að skoða þetta málefni og ég fagna þessari fyrirspurn því að við þurfum að halda áfram að bæta hag fjölskyldnanna.