131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Öryggislögregla.

390. mál
[14:07]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Eins og við var að búast fór umræðan út og suður og er erfitt að henda reiður á því hvað þingmenn vilja í raun og veru í þessu efni. Sérstaklega harma ég hvernig hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson gekk hér fram á algerlega misskildum forsendum eins og raunar svo oft þegar hann stendur upp í ræðustól og talar um mál sem varða starfshætti dómsmálaráðherra og dómsmálaráðuneytisins.

Ég vil aðeins undir lokin, herra forseti, endurtaka það sem ég sagði því það er greinilegt að menn hafa ekki heyrt nægilega vel það sem ég sagði sem svar við fyrstu fyrirspurninni, en þar segir:

Samkvæmt 5. gr. lögreglulaga er hlutverk ríkislögreglustjóra m.a. að starfrækja lögreglurannsóknardeild sem rannsakar landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess. Í helstu nágrannalöndum okkar er verkefnum af þessu tagi sinnt af lögreglu en iðulega af sérstakri deild eða sérstakri öryggislögreglu sem starfar á grundvelli skýrra lagaheimilda og jafnvel sérstakrar löggjafar. Á það hefur verið bent að skortur á slíkri löggjöf geti vakið upp spurningar um heimildir lögreglu til aðgerða og eftirgrennslana með málum af þessum toga og nauðsynlegt sé að eyða slíkri óvissu með skýrri löggjöf, bæði til hagsbóta fyrir þá sem starfa á grundvelli hennar og almenning í landinu. Ekki liggur fyrir nein ákvörðun um það hvernig úr þessu verður bætt.

Ég tel að það sé lagaheimild í 5. gr. lögreglulaganna til að sinna þessum verkefnum en síðan vek ég máls á því að bent hafi verið á að það kunni að vera skynsamlegra að setja um þetta sérstaka löggjöf. Ég tel ekki að það skorti neinar heimildir fyrir lögreglu til að sinna þessum verkefnum.