131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Gerð stafrænna korta.

164. mál
[14:09]

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ber fram eftirfarandi fyrirspurn til umhverfisráðherra um gerð stafrænna korta hjá Landmælingum Íslands.

1. Hvaða ástæður liggja að baki því að ekki er gert ráð fyrir fé í fjárlögum til áframhaldandi vinnu við gerð stafrænna korta í mælikvarðanum 1:50.000 (IS 50V), sem er m.a. hluti af stefnumótun stofnunarinnar og árangursstjórnunarsamningi sem umhverfisráðherra hefur staðfest?

2. Hvaða áhrif hefur þessi ákvörðun á mannahald og umfang starfsemi Landmælinga Íslands ef af verður og hyggst ráðherra gera ráðstafanir til að tryggja að starfsemi Landmælinga Íslands dragist ekki saman vegna þessa?

Talsvert vatn hefur runnið til sjávar síðan þessi fyrirspurn var lögð fram. Henni var ætlað að kalla fram svör við því hvers vegna stjórnvöld hefðu svo snögglega skipt um skoðun hvað gerð stafrænna korta varðaði og hvað væri svo óskynsamlegt við þetta verkefni að það afsakaði að ríkið hlypi frá skuldbindingum sínum með þeim hætti sem boðað var. Það var og er verulega áhugavert að heyra af hverju nýr hæstv. umhverfisráðherra tók þá ákvörðun að hætta við þetta verkefni. En svo kom í ljós við frekari vinnslu fjárlaga að þessari stefnu sem nýr umhverfisráðherra hafði boðað var hafnað. Bókað er af þessu tilefni m.a. eftirfarandi við gerð fjárlaga:

„Veitt er 14 millj. kr. framlag til Landmælinga Íslands til að viðhalda IS 50V kortagrunni sem gerður hefur verið af öllu Íslandi. Ríkisstjórnin ákvað árið 1998 að hrinda IS 50V verkefninu af stað vegna mikilvægis þess fyrir kortagerð af landinu. Gerð kortagrunnsins hefur verið stærsta verkefni stofnunarinnar í sex ár og er hann nú hryggsúlan í allri kortagerð stofnunarinnar.“

Ljóst er að stofnunin hefur fengið fjármuni og viljayfirlýsingu Alþingis til áframhaldandi vinnu við þetta verkefni en líka að verulegur samdráttur verður vegna lækkunar fjárheimildanna. Í ljósi þessarar atburðarásar verður að gera þá kröfu til hæstv. ráðherra að hún geri grein fyrir vilja sínum hvað þennan kortagrunn varðar. Vill ráðherrann eins og tillagan í frumvarpi til fjárlaga bar með sér að hætt verði við þetta verkefni og þá hvers vegna? Tók fjárlaganefnd kannski ráðin af hæstv. ráðherra í þessu máli eða hefur hæstv. ráðherra skipt um skoðun og ætlar hún þá að styðja stofnunina í því að halda þessu verkefni áfram?