131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Gerð stafrænna korta.

164. mál
[14:12]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Herra forseti. Árið 1999 samþykkti ríkisstjórn Íslands að gert skyldi átak í kortagerð af Íslandi og veitti til þessa verkefnis Landmælingum Íslands 30 millj. kr. árlegri fjárveitingu í fimm ár til að ljúka gerð stafrænna korta í mælikvarðanum 1:50.000. Þessi ákvörðun var tekin um svipað leyti og stofnunin var flutt á Akranes. Var leitað eftir sérstakri aðstoð bandarískra yfirvalda við að útvega eldri kortagögn til að draga úr kostnaði við verkefnið.

Fyrstu útgáfu kortagrunns af öllu Íslandi í mælikvarðanum 1:50.000 lauk á árinu 2003 og var útgáfa hans kynnt á ráðstefnu í árslok sama árs. Markaði sá áfangi stórt skref í kortagerð hér á landi. Eru nú yfir 100 áskrifendur að kortagrunninum auk þess sem hann er grundvöllur nær allrar kortagerðar Landmælinga Íslands.

Fyrsta útgáfa IS 50V kortagrunnsins inniheldur stafræn gögn af öllu landinu í sjö lögum, hæðarlínur, vatnafar, mannvirki, samgöngur, mörk, yfirborð og örnefni. Hafin er vinna við endurskoðun og endurnýjun þeirra gagna sem í grunninum eru og því er mikilvægt að áfram fáist fjárveiting til þessa verkefnis. Þegar hafa verið teknar ákvarðanir um kaup á gervitunglamyndum af landinu öllu í samstarfi við um 15 stofnanir og fyrirtæki. Einnig er í undirbúningi útboð á nýju hæðarlíkani af landinu öllu í samstarfi við átta ríkisstofnanir auk Landsvirkjunar.

Þeim verkáfanga sem ákveðið var að ráðast í á árinu 1999 er lokið og þar með þeirri tímabundnu fjárveitingu sem þá var ákveðin til verksins. Hins vegar hafa Landmælingar Íslands frá upphafi lagt áherslu á nauðsyn þess að uppfæra hinn nýja stafræna kortagrunn og var óskað eftir fjárveitingum til þess verks og veittar á fjárlögum ársins 2005 14 millj. kr. til verksins sem umhverfisráðherra studdi við að fengist. Sú fjárveiting, 14 millj. kr. sem fengust á fjárlögum árið 2005, er u.þ.b. helmingi lægri upphæð en Landmælingar telja sig þurfa til uppfærslu og viðhalds IS 50V kortagrunnsins og því er ljóst að þetta mun hafa einhver áhrif á mannahald hjá stofnuninni til framtíðar. Landmælingar Íslands munu endurskipuleggja og forgangsraða verkefnum hjá sér í kjölfar þessa þar sem ljóst er að IS 50V er kjarnaverkefni og að sjálfsögðu gæti dráttur í uppfærslu kortagrunnsins haft áhrif á notkun hans.