131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Kyoto-bókunin.

274. mál
[14:29]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er ljóst að við lok Kyoto-tímabilsins verða Íslendingar við það að ná toppi í íslenska ákvæðinu. Auk þess munum við eiga í erfiðleikum með, og ekki útséð um hvernig það fer, að standa við hinar almennu skuldbindingar samkvæmt Kyoto-bókuninni. Spurningin er auðvitað hvað verður eftir það, ekki einungis hvort við náum þessu. Fyrir hverju er gert ráð í ríkisstjórn og á skrifstofu hæstv. umhverfisráðherra um þá samninga sem við taka? Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda er gert ráð fyrir því að eftir að tímabil Kyoto-bókunarinnar er liðið verði kröfurnar mjög hertar og verði 50–60% samdráttur sem við munum eiga erfiðara með að mæta vegna þess að við aukum núna losunarheimildirnar. Það sem stendur upp á, ekki núverandi hæstv. umhverfisráðherra heldur þá sem á eftir henni koma og röðina sem á eftir kemur, er að draga saman. Spurningin er: Hvaða afstöðu hefur hæstv. umhverfisráðherra til þess?