131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Kyoto-bókunin.

274. mál
[14:32]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það fór á þann veg sem mig grunaði. Þrátt fyrir þriggja ára gamla stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um hvernig eigi í tilteknum atriðum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á landinu, með aðgerðum innan lands, þá stendur mjög lítið eftir eða hefur réttara sagt lítið verið framkvæmt. Það liggur heldur ekki fyrir framkvæmdaáætlun til næsta áratugar þótt ekki sé hugsað lengur fram í tímann um það hvað taki svo við. Það er auðvitað þannig, herra forseti, að að loknu fyrsta skuldbindingartímabilinu mun taka við annað skuldbindingartímabilið og vonandi hið þriðja og það fjórða.

Eins og bent hefur verið á munu kröfurnar til okkar, til allra iðnríkjanna og síðan allra ríkja heims, um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda bara aukast á þessari öld. Þær tölur sem vísindamenn nefna núna, um helmingslækkun losunar á þessari öld, eru aðeins til þess ætlaðar að stöðva þá þróun sem þegar er hafin, að reyna að halda hlýnun loftslagsins þannig að hún verði ekki meiri en 2°C. Til eru spár sem segja til um miklu meiri hlýnun og hrikalegar afleiðingar fyrir allt mannkyn. Við verðum líka að hugsa í þessu stóra samhengi um hvað við þurfum að gera. Því miður virðist það að ríkisstjórn Íslands hefur lagt höfuðáherslu á íslenska ákvæðið og undanþágur fyrir stóriðjuna hér á landi haldast í hendur við það að ríkisstjórnin hefur látið undir höfuð leggjast að setja saman raunhæfar aðgerðir, raunhæfa framkvæmdaáætlun um hvernig við ætlum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það er ámælisvert, hæstv. forseti. Ég vænti þess að hæstv. umhverfisráðherra taki þetta mál mun fastari tökum en gert hefur verið hingað til.