131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Innanlandsmarkaður með losunarefni.

367. mál
[14:37]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég spyr um innanlandsmarkað með losunarheimildir. Í Kyoto-bókuninni er m.a. gert ráð fyrir alþjóðlegri verslun með losunarheimildir og iðnríkin eiga samkvæmt henni að koma sér upp skráningarkerfi til að styðjast við í þeim viðskiptum. Í bókuninni eru einnig svokölluð sveigjanleikaákvæði sem fjalla um verkefni sem eitt ríki eða fyrirtæki frá einu ríki stendur fyrir í öðru ríki og minnkar þar losun. Er þá gert ráð fyrir að framkvæmdaríkið fái auknar losunarheimildir auk beins og óbeins hagnaðar beggja aðila af slíkum verkefnum. Í öðru ákvæði er á sama hátt fjallað um hreina framleiðslutækni.

Þessi ákvæði eru afar áhugaverð fyrir Íslendinga af því að við stöndum framarlega á nokkrum sviðum sem hér kunna að koma við sögu. Einnig er hugsanlegt að við gætum með þeim hætti laðað að erlent fjármagn til að græða landið og binda þar með kolefni til nokkurrar framtíðar. Á báða vegu er nánast skilyrði að til sé hérlendis sæmilegt bókhald um losun innan lands. Að auki er ólíklegt að fyrirtæki á Íslandi sýni áhuga á samstarfsverkefnum af þessu tagi meðan ekki er amast við losun heima fyrir, engin mörk eða viðmið um losun, hvorki fyrir einstök fyrirtæki né atvinnugreinar og engin stefnumótun í gangi um losun í framtíðinni.

Í ágætri skýrslu sem Auður H. Ingólfsdóttir tók saman fyrir loftslagshóp Landverndar, en þar er unnið að þessum efnum, er einnig bent á tilskipun ESB um viðskipti með losunarheimildir sem tók gildi nú í ársbyrjun. Hún tekur fyrst og fremst til iðnaðar. Þar er reyndar ein stór undantekning og áberandi sem er áliðnaðurinn, svo er a.m.k. enn þá en allt bendir til þess að í framtíðinni verði verksvið tilskipunarinnar aukið smátt og smátt. Samkvæmt henni á hvert aðildarríki að undirbúa innanlandsáætlun um framkvæmd tilskipunarinnar og í því lendum við Íslendingar strax og tilskipunin tekur til iðnaðar og annarrar þeirrar losunar sem hér tíðkast.

Forseti. Kyoto-bókunin nær til 2012 eins og komið hefur fram í dag. Eftir það er allt óvíst nema að kröfurnar aukast verulega. Við eigum strax að búa okkur undir framtíðarskipulag í heiminum öllum í þessum efnum. Því fyrr sem menn gera sér grein fyrir því, þeim mun betra. Það er kominn tími til þess að atvinnulíf og einstaklingar búi sig undir hið óhjákvæmilega, iðnaður, floti, bíleigendur, stóriðja o.s.frv. Takmarkanir á losun, ákvarðanir um kvóta eftir greinum, fyrirtækjum og öðrum losunarvöldum kalla á innbyrðis viðskipti með verðmætin sem við þetta myndast, eins sérkennilegt og það hljómar á okkar tímum sívaxandi mengunar og ógnvænlegra loftslagsbreytinga að kalla það verðmæti.