131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Innanlandsmarkaður með losunarefni.

367. mál
[14:40]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Herra forseti. Í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir til að standa við skuldbindingar loftslagssamningsins og Kyoto-bókunarinnar frá 2002 segir eftirfarandi:

„Kyoto-bókunin felur einnig í sér ákvæði um viðskipti milli landa með útstreymisheimildir. Útfærsla íslenska ákvæðisins takmarkar hins vegar þessi viðskipti þannig að Ísland getur ekki selt frá sér útstreymisheimildir. Ríkjum er í sjálfsvald sett hvort þau takmarki útstreymi innan lands með úthlutun útstreymisheimilda og viðskiptum með þær. Að athuguðu máli er ekki talin ástæða til þess að fara þá leið hér á landi.“

Það er því ekki verið að undirbúa í umhverfisráðuneytinu eða undirstofnunum þess að koma á innanlandsmarkaði með losunarheimildir. Slíkur markaður hentar best fyrir orkuver og verksmiðjur með mikla losun en Evrópusambandið hefur sett á fót markað með losunarheimildir sem nær fyrst og fremst til slíkra aðila. Hér á landi er nær enginn slíkur stór losunaraðili utan stóriðjuverin sem falla undir íslenska ákvæðið og mega ekki selja þær heimildir sem þau fá innan hennar.

Annað útstreymi gróðurhúsalofttegunda kemur aðallega frá mörgum dreifðum uppsprettum, svo sem bifreiðum, fiskiskipum og landbúnaði. Ávinningur af innanlandsmarkaði með losunarheimildir yrði af þessum sökum líklega mjög lítill og hagkvæmni lítil eða engin en töluverð umsýsla við uppsetningu hans og viðskiptin.

Aðildarríki Kyoto-bókunarinnar eiga að koma á skráningarkerfi fyrir losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda áður en fyrsta skuldbindingartímabilið hefst árið 2008. Stefnt er að uppsetningu slíks kerfis hér á landi sem mun byggja á útstreymis- og bindingarbókhaldi Íslands sem vistað er í Umhverfisstofnun. Með slíku kerfi verður vel búið í haginn fyrir viðskipti með losunarkvóta innan lands eða við erlenda aðila, kjósi menn á einhverju stigi að fara þá leið.