131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Innanlandsmarkaður með losunarefni.

367. mál
[14:44]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við verðum að vona að í umhverfisráðuneytinu vakni menn upp af sínum ljúfa draumi og fari að leggja drög að því að hægt verði að versla með losunarheimildir innan lands og utan í framtíðinni og helst í náinni framtíð.

Ég heyrði ekki betur, hæstv. forseti, en að hæstv. umhverfisráðherra gerði hreinlega ráð fyrir því að stóriðjuundanþágan héldist óbreytt inn í framtíðina. Hér er alltaf talað eins og hið íslenska ákvæði verði til staðar að eilífu og að Íslendingar þurfi ekki að axla frekari byrðar þegar við tekur annað, þriðja og fjórða skuldbindingartímabil Kyoto-bókunarinnar. Hæstv. umhverfisráðherra getur væntanlega leiðrétt mig ef ég hef misskilið þetta en það hlýtur að þurfa að huga að því á næsta áratug að íslensk stóriðja, þrátt fyrir hinn mikla afslátt sem hún hefur hingað til fengið, þurfi að axla byrðarnar hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda.