131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Innanlandsmarkaður með losunarefni.

367. mál
[14:45]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það vekur óneitanlega athygli við þessa umræðu hversu litlar áhyggjur hæstv. umhverfisráðherra virðist hafa af þessum málum og þróun þeirra, en sem kunnugt er hafa sérfræðingar, stjórnmálamenn og fyrirsvarsmenn um heim allan þvert á móti verulegar áhyggjur af þróuninni. Þegar hæstv. umhverfisráðherra telur að ekki taki því að hafa um þetta sérstakan markað þá hljótum við að kalla eftir því að hæstv. ráðherra upplýsi hversu mikil verðmæti séu fólgin í þessum mengunarkvótum og hvert sé þá umfang þess markaðar. Gott væri ef hæstv. ráðherra gæti upplýst það og eins hvort hún telji ekki að hagrænir hvatar séu nauðsynlegir fyrir fólk og einkum þó atvinnulíf til þess að ná árangri í því að draga úr mengun og bæta umhverfi okkar.