131. löggjafarþing — 61. fundur,  26. jan. 2005.

Meðferð opinberra mála og almenn hegningarlög.

38. mál
[14:52]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála og almennum hegningarlögum. Þetta er nokkurs konar bandormur. Ég geri ráð fyrir að breytingar verði á þessum tveimur lagabálkum. Frumvarpið varðar brottvísun og heimsóknarbann og meðflutningsmenn mínir eru allir hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Þetta mál er endurflutt frá því á síðasta þingi. Það er að vísu lítillega breytt og mun ég í máli mínu fara aðeins yfir þær breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu. Þá var málinu, eins og eðli þess gefur til kynna, vísað til allsherjarnefndar og allsherjarnefnd sendi málið á sínum tíma út til nokkurs fjölda umsagnaraðila og er þess getið í greinargerðinni hverjir svöruðu umsagnarbeiðnum og gáfu umsagnir um málið.

Í stuttu máli má segja að hér sé um að ræða mál þar sem lögreglu verði gefin heimild til þess að vísa manni brott af heimili sínu og úr nánasta umhverfi heimilisins og banna viðkomandi að koma þangað aftur í tiltekinn tíma ef lögregla hefur rökstudda ástæðu til þess að ætla að þessi einstaklingur beiti náinn aðstandanda ofbeldi, hóti ofbeldi eða sýni framferði sem spillir mjög líkamlegu heilbrigði, andlegu heilbrigði, heilsu eða friði þess manns eða barns sem í hlut á.

Brottvísunin og þetta heimsóknarbann, sem ég er að vitna hér í samkvæmt 1. mgr. 2. gr., getur gilt í tíu sólarhringa og ber að skilgreina til hvaða svæðis viðkomandi bann nær. Lögreglunni ber samkvæmt þessu frumvarpi að vísa ákvörðuninni til héraðsdómara innan eins sólarhrings og héraðsdómara er síðan gert að kanna ástæður fyrir þessari ákvörðun og staðfesta ef rökstuðningur er fullnægjandi en fella niður eða breyta að öðrum kosti.

Mestu breytingarnar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu frá fyrri flutningi þess á síðasta löggjafarþingi eru einmitt í þessari setningu þar sem styttur er frestur lögreglunnar um einn sólarhring, þ.e. úr tveimur í einn, til að vísa ákvörðuninni til héraðsdómara. Sömuleiðis er bætt við niðurlag málsgreinarinnar að héraðsdómara beri að staðfesta ákvörðunina ef rökstuðningur er fullnægjandi en fella hana niður eða breyta að öðrum kosti. Það er nýtt í þessu frumvarpi núna að héraðsdómara sé gefið tækifæri til að breyta ákvörðuninni ef hann telur ástæðu til þess. Báðar þessar breytingar eru komnar til vegna ábendinga frá umsagnaraðilum.

Þá gerir frumvarpið ráð fyrir því að hægt verði að framlengja þetta heimsóknar- og nálgunarbann ef fram kemur krafa frá brotaþola um það og slíkri kröfu skuli þá beina til héraðsdómara sem getur heimilað framlengingu til allt að þriggja mánaða ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

Svo er gert ráð fyrir í frumvarpinu að almenn hegningarlög breytist með því að þar verði bætt inn nýrri málsgrein sem geri ráð fyrir því að brot gegn brottvísun og heimsóknarbanni samkvæmt lögunum um meðferð opinberra mála varði sektum. Síðan höfum við bætt inn í þessa frumvarpsgrein: „eða fangelsi allt að 2 árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.“ Er þessu ákvæði einnig breytt vegna ábendinga frá umsagnaraðilum.

Það er nefnilega svo, hæstv. forseti, að — nú finn ég ekki þá grein í greinargerðinni sem ég ætlaði mér að vísa til — en það mun vera skýrt í greinargerðinni hvaðan þessi hugmynd er komin, að það þurfi að setja hér inn líka þessa kröfu um fangelsi allt að tveimur árum.

Ástæður þess að frumvarp af þessu tagi er lagt fram á Alþingi Íslendinga, hæstv. forseti, má auðvitað rekja til þess að ofbeldi gegn konum er útbreiddasta mannréttindabrot okkar tíma. Það er sannarlega þörf á því að íslenska löggjafarsamkundan geri allt sem í hennar valdi stendur til þess að reyna að girða fyrir þá ofbeldisglæpi sem framdir eru.

Nú höfum við í lögum ákvæði um nálgunarbann. Það er nokkuð athyglisvert þegar það er skoðað nánar að það ákvæði, sem er sannarlega spor í rétta átt, er í raun og veru takmarkað að því leytinu til að það nær eingöngu yfir þá ofbeldismenn sem beita ofbeldi utan síns eigin heimilis. En það er staðreynd að líkamlegt og andlegt ofbeldi gegn konum er langoftast framið af sambýlismönnum þeirra og oftar en ekki framið innan veggja heimilisins þar sem þessir ofbeldismenn hafa hingað til verið friðhelgir.

Hvernig hefur samfélagið tekið á þessum málum? Jú, þegar ofbeldi inni á heimilunum er gert uppvíst eða opinskátt og lögregla kemst á snoðir um slíkt þá neyðist lögregla til að fjarlægja fórnarlömbin af heimilinu. Með öðrum orðum þurfa konur og börn sem þurfa að þola ofbeldi af hendi heimilisföður að gerast flóttamenn í eigin landi og lögregla þarf að koma þeim fyrir í skýlum eða athvörfum þar til gerðum á meðan ofbeldismaðurinn fær áfram að hreiðra um sig í stofunni heima, hækka í sjónvarpinu og fá sér annan bjór ef því væri að skipta. En fórnarlömb ofbeldisins þurfa að flýja.

Hæstv. forseti. Við erum ekki fyrsta fólkið sem kemur auga á þessa mismunun heldur má rekja hugmynd þessa til Austurríkis, en þaðan er frumkvæðið tekið og fyrirmyndin frá Austurríki nýtt í þetta frumvarp. Sömuleiðis hafa nágrannar okkar á Norðurlöndunum breytt lögum sínum og er gerð grein fyrir því í greinargerðinni hvernig bæði Norðmenn og Svíar hafa breytt lögum sínum á svipaðan hátt og hér er lagt til að gert verði.

Árið 1997 lögfesti Austurríki úrræði af þessu tagi til handa lögreglu og eru til skýrslur sem vitna um að reynslan af ákvæðinu hafi verið afar jákvæð. Vissulega urðu mjög miklar umræður í austurríska þinginu um þessi ákvæði áður en þau hlutu lagagildi. Þar var fjallað um þau rök að þetta bryti trúlega gegn friðhelgi heimilisins og rétti heimiliseigenda. Engu að síður var ákvæðið samþykkt í Austurríki á grundvelli þess að mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna kvæði á um rétt einstaklinga til að njóta öryggis á eigin heimili. Í Austurríki voru tekin af öll tvímæli um að fórnarlömb ofbeldismanns ættu meiri rétt til friðhelgi á heimilinu en ofbeldismaðurinn. Á endanum náðist því mjög góð og breið pólitísk sátt í Austurríki um málið og eins og ég sagði áðan hefur reynslan af ákvæðinu verið mjög jákvæð og er það mál manna í Austurríki að þetta hafi þróast með þeim hætti að ofbeldi á heimilunum hafi minnkað. Ef það er ekki ánægjulegt þegar slíkt markmið næst þá er manni illa brugðið.

Norðmenn og Svíar hafa, eins og ég sagði áðan, fylgt í fótspor Austurríkismanna og þingmenn frá ýmsum Evrópulöndum hafa einnig sýnt þessu máli mikinn áhuga. Ég á ekki von á öðru en að þessi hugmynd Austurríkismanna sé að breiðast núna út um álfuna alla og er það auðvitað vel.

Það sem fylgir í þessum málum er auðvitað að með þessu úrræði lögreglu er vandinn að sjálfsögðu ekki leystur. Það verður að horfa víðar yfir sviðið og sjá til þess að bæði ofbeldismaðurinn og fórnarlömb ofbeldismannsins hljóti stuðning og aðstoð við að vinna sig út úr þeim vanda sem ofbeldið hefur skapað. Það hlýtur að vera hluti af markmiðinu að styrkja öll slík úrræði þar sem ofbeldismenn geta fengið meðferð við sínum vanda og auðvitað verður að koma til mjög öflug aðstoð til barna sem alast upp við fjölskylduofbeldi, ekki hvað síst þarf að styrkja og styðja sérstaklega þær konur sem beittar eru ofbeldi. Það hafa nágrannalöndin gert.

Í Noregi hefur verið gert mikið átak og reyndar sett á fót áætlun sem gerir ráð fyrir að markmiðum af þessu tagi verði náð. Heilbrigðisráðuneytið, barna- og fjölskylduráðuneytið og dómsmálaráðuneytið í Noregi hafa unnið saman að þessu verkefni sem felur m.a. í sér að setja á fót sérstaka ofbeldis- og áfallamiðstöð til að vinna að heildarsamræmingu þessara mála um allt landið og vera ráðgefandi fyrir alla sem tengjast meðferð þessara mála. Ég tel það sem Norðmenn hafa gert í þessum málum vera til mikillar fyrirmyndar og tel alveg sýnt að hvernig svo sem afgreiðsla málsins fer á þessu þingi í vetur séu Norðmenn búnir að setja upp módel sem er þess eðlis að við ætlum að skoða gaumgæfilega og gera allt sem í okkar valdi stendur til að fylgja í fótspor þeirra.

Lítum aðeins á íslensku stjórnarskrána. Í henni er getið um að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Þó er í 2. mgr. 71. gr. gerðar undantekningar á þeirri meginreglu þannig að með sérstakri lagaheimild má takmarka friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra. Í mannréttindasáttmála Evrópu, 8. gr., sem hefur haft lagagildi hér frá því í maí 1994 er sambærilegt ákvæði um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu. Þar er gert ráð fyrir að opinber stjórnvöld skuli ekki ganga á þann rétt nema samkvæmt ákvæðum laga og ef nauðsyn beri til í lýðræðislegu þjóðfélagi, m.a. til að vernda heilsu manna eða siðgæði. Þar með má segja að friðhelgi eins manns sé ekki ríkari en réttur annars til persónufrelsis og kannski styðja þessi öryggissjónarmið það.

Hæstv. forseti. Á síðustu árum hefur verið reynt að bæta réttarstöðu þolenda afbrota á ýmsan hátt en ég held að betur megi ef duga skuli. Ég held að ákvæði af því tagi sem hér er lagt til að verði sett í lög sé þess eðlis að það mundi veita lögreglu heimild sem er virkileg þörf fyrir og þó svo það sé rétt í framsöguræðu með svona máli að brýna það að lögreglu beri að nota slíkt ákvæði með mikilli varúð tel ég alveg ljóst að kringumstæðurnar sem íslenska lögreglan kemur oft að inni á heimilum séu þess eðlis að lögreglan á að vera fullkomlega í stakk búin til þess að meta aðstæðurnar og sjá hvenær beita þyrfti ákvæðinu og hvenær ekki. Auðvitað þyrfti að fara fram ákveðið hagsmunamat lögreglunnar á því hversu alvarlegt ástandið er, en með því ákvæði sem hér er sett inn um að héraðsdómur þurfi að staðfesta ákvörðun lögreglunnar tel ég vera loku fyrir það skotið að einhver brögð af misnotkun verði uppi, enda hefur það sýnt sig í Austurríki að ákvæðinu hefur verið beitt af mikilli varfærni en skynsemi hjá austurrísku lögreglunni og hafa ekki borist neinar kvartanir sem heitið getur undan því að verið sé að misbeita ákvæðinu.

Það er alveg ljóst og við sjáum það af þeim ákvæðum sem gilda í íslenskum lögum um nálgunarbann, að erfiðleikarnir samfara því eru þeir að brotaþoli á að taka ákvörðunina um nálgunarbannið. Í þessu tilfelli er ég að leggja til að það verði lögreglan sem taki ákvörðunina og óski eftir nálgunarbanninu. Þetta eru grundvallaratriði sem ber að hafa í huga þegar málið er skoðað því það er alveg ljóst að brotaþoli er í mjög veikri stöðu gagnvart ofbeldismanni sínum, sérstaklega ef um er að ræða eiginmann eða sambúðarmaka er eðlilegt að brotaþoli sé í veikri stöðu og veigri sér við að taka slíkar ákvarðanir. Kannski þurfum við að hugleiða hvort breyta eigi því ákvæði sem við búum við, nálgunarbannsákvæðinu, hvort það eigi að setja það líka í hendur lögreglu eða yfirvalda að taka ákvörðunina fyrir fórnarlömb ofbeldisins.

Fram hefur komið í umræðum um ofbeldismál upp á síðkastið og ekki hvað síst í miklum umræðum sem urðu um heimilisofbeldi á haustmánuðum, í nóvember, þegar 16 daga átak gegn ofbeldi var sett á laggirnar af mörgum frjálsum félagasamtökum og stofnunum sem vinna á þessu sviði. Í umræðum um heimilisofbeldi hefur komið fram að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telji að ofbeldi gegn konum sé eitt af alvarlegustu heilbrigðisvandamálum veraldarinnar. Það hefur verið upplýst af stofnuninni að fleiri konur missi heilsuna af völdum ofbeldis sem rekja megi til kynferðis þeirra en af völdum malaríu, umferðarslysa og hernaðarátaka samanlagt.

Hæstv. forseti. Við vitum að þessum málum er ekkert öðruvísi farið í okkar landi en í nágrannalöndum okkar, því miður. Vandamálið er alþjóðlegt og það viðgengst jafnt í ríkum löndum sem fátækum.

Fjöldi kannana hefur leitt í ljós að þeir sem ofbeldinu beita eru úr öllum stéttum og stigum þjóðfélagsins. Þær hafa einnig sýnt að algengasta mynd ofbeldisins er heimilisofbeldi þar sem gerandinn er yfirleitt kærasti, eiginmaður, ættingi eða góður kunningi konunnar sem fyrir ofbeldinu verður.

Í greinargerð með frumvarpinu er getið frekari kannana og rannsókna sem gerðar hafa verið í þessum efnum og getið greina og upplýsinga sem leita má til til þess að fá frekari upplýsingar og ábendingar um áhrif heimilisofbeldis, t.d. áhrif heimilisofbeldis á börn og hættuna á því að drengir geti átt það til að feta í fótspor feðra sinna þegar þeir setja á stofn fjölskyldu, sem og að stúlkur eigi á hættu að verða fórnarlömb á sama hátt og mæður þeirra.

Hæstv. forseti. Til þess að vinna gegn þessum vítahring er nauðsynlegt að grípa til úrræða af því tagi sem hér er lagt til. Ég tel því að samábyrgð okkar alþingismanna sé mikil og hvet einungis til þess að tekið sé í taumana og málið skoðað með ábyrgum hætti í allsherjarnefnd sem fær það aftur til meðferðar að lokinni þessari umræðu.

Tölulegar upplýsingar sem við höfum um ofbeldi á Íslandi eru svo sem ekki miklar en við vitum þó að Kvennaathvarfið hefur tekið við miklum fjölda kvenna sem koma til athvarfsins vegna ofbeldismála. Nú liggur fyrir ársskýrsla Kvennaathvarfsins fyrir árið 2003. Þar kemur í ljós að konum sem komu til dvalar í athvarfinu hefur fjölgað talsvert mikið á milli ára. Dvalardögum hefur fjölgað og meðaldvalartími hefur lengst, þannig að við erum ekki að sjá neina bót á ástandinu af sjálfu sér. Við getum séð í tölunum sem Kvennaathvarfið gefur í skýrslu sinni að ástandið hér á landi er mjög alvarlegt . Ég verð að segja að skýrsla Kvennaathvarfsins hlýtur að vera hvatning til okkar og stjórnvalda almennt um að halda stöðugt úti markvissu starfi gegn heimilisofbeldi.

Amnesty International og Reykjavíkurdeild Amnesty hefur beitt sér talsvert mikið gegn ofbeldi, kynbundnu ofbeldi, á síðustu missirum og m.a. skrifað um það greinar. Amnesty hefur t.d. bent á að Evrópuráðið hafi nýverið sent frá sér áskoranir til stjórnvalda um að grípa í taumana því ekki sé hægt að halda svona áfram. Heimilisofbeldi er helsta orsök dauða og örkumla kvenna á aldrinum 16–44 ára og veldur fleiri dauðsföllum og meira heilsuleysi en krabbamein og umferðarslys. Svo segir Evrópuráðið.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur líka skýrt frá því að allt að 70% kvenna sem myrtar hafi verið hafi látist af völdum maka sinna.

Eins og ég sagði hefur Amnesty International hafið opinbera herferð gegn ofbeldi, kynbundnu ofbeldi. Hún hófst á síðasta ári og stendur enn. Ég get ekki annað gert en að taka undir hvatningarorð Amnesty sem birtast í skrifum þeirra, t.d. tímariti þeirra, þar sem stjórnvöld eru hvött til þess að sofa ekki á verðinum, því svo lengi sem ofbeldi gegn konum sé látið viðgangast eða litið fram hjá því af samfélaginu eða stjórnvöldum og svo lengi sem gerandanum sé ekki refsað muni ofbeldi í garð kvenna halda áfram. Það er á okkar valdi að stemma stigu við ofbeldinu. Mál af því tagi sem ég hef nú talað fyrir er liður í því og ég tel einsýnt að alþingismenn muni taka því vel að greiða leið þess í gegnum þingið.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu vísa ég málinu til 2. umr. og hv. allsherjarnefndar til skoðunar.