131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[11:03]

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir rakti í furðugóðri ræðu sinni áðan miðað við aðstæður allar er þetta mál tekið á dagskrá með nokkuð undarlegum hætti. Það var ekki á vikuáætlun þingsins að sinni eins og er yfirleitt um stjórnarfrumvörp þó að við séum vön því, þingmenn, að þingmannamálin séu tekin fyrir með ákaflega skömmum fyrirvara. Þingflokksformenn voru heldur ekki látnir vita að þetta mál kæmi á dagskrá í dag eftir þeim heimildum sem ég hef bestar þannig að það er ætlast til þess að menn hafi kynnt sér þetta á ný — ýmsir voru búnir að lesa sér til og undirbúa sig undir þessa umræðu — án þess að vera látnir af henni vita. Ég sá fyrst um ellefuleytið í gær að vatnalögin væru á dagskrá í dag þegar ég af tilviljun fór í tölvuna heima hjá mér.

Það vekur líka athygli við þessa umræðu sem hæstv. iðnaðarráðherra hóf að þegar hún hófst var aðeins einn maður úr iðnaðarnefnd staddur í þingsölum, hv. þm. Einar Már Sigurðarson. Nú hefur annar bæst við, kom hér hlaupandi, hv. þm. Jóhann Ársælsson. Enginn stjórnarliði er viðstaddur umræðuna. Formaður iðnaðarnefndar, hinn ungi og æskuhreini vaski sveinn, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, er sennilega eins og unglinga er siður enn þá sofandi og hefur ekki verið látinn vita af umræðunni. Þó er honum ætlað að leiða málið. (Gripið fram í: … ungur.) Ungt fólk þarf að hvíla sig líka eins og hæstv. iðnaðarráðherra veit sem enn er á ungum árum og er nýkomin úr mikilli hvíldarferð til Flórídafylkis í Bandaríkjunum þar sem hún að vísu hvíldist ekki betur en svo að hún varð að skipta sér aðeins af stjórnmálaástandinu á Íslandi, enda orðið það alvarlegt að iðnaðarráðherra varð að grípa inn í. Það er því von að aðrir þurfi hvíld en hæstv. ráðherra. Að öllu gamni slepptu er það auðvitað ekki alvöruumræða sem fer þannig fram að ráðherra kemur hér og síðan er enginn í salnum af þeim meiri hluta sem um málið á að véla.

Ég held því, forseti, að nú sé ráðlegast að fresta umræðunni að lokinni hinni skörulegu ræðu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur og framsögu hæstv. ráðherra. Ég fer fram á það við forseta. Sú sem hér situr í forsetastól er hin eina úr forsætisnefnd sem hér er inni. Sá sem kjörinn var forseti þingsins er ekki í salnum og hefur ekki sést til hans í þinghúsinu í morgun þannig að ég sé ekki betur en að forseti sé nauðbeygð að þessu sinni til að taka þá ákvörðun ein og sjálf. Ég fer fram á það að þessari umræðu verði frestað og tekin síðar fyrir á dagskrá þingsins hvenær sem mönnum þykir það hyggilegt.