131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[11:07]

Forseti (Þuríður Backman):

Eftir að hafa hlustað á athugasemdir hv. 8. þm. Reykv. n., Kolbrúnar Halldórsdóttur, sem gagnrýndi fundarstjórn og sömuleiðis athugasemdir hv. 7. þm. Reykv. s. varðandi fundarstjórn vill forseti upplýsa áður en lengra er haldið, vegna þess að fleiri hv. þingmenn hafa kvatt sér hljóðs um fundarstjórn, að forseti tekur undir þá gagnrýni að það sé mjög óheppilegt að taka svo stórt mál á dagskrá með svo skömmum fyrirvara.

Málinu var útbýtt í þinginu 7. desember en þetta er stórt mál og það er eðlilegt að þingmenn vilji hafa tíma til að undirbúa sig þó að tími sé liðinn frá því að því var útbýtt. Vegna veikinda sem hafa sett spor á alla dagskrá þingsins í þessari viku, svo og í dag, vegna veikinda bæði þingmanna og ráðherra og þar af leiðandi fjarveru, hefur dagskráin farið úr skorðum. Við munum skoða þá beiðni sem hér hefur komið fram um hvernig málinu vindur áfram.