131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[11:11]

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil auðvitað byrja á að fagna því að hæstv. forseti hefur tekið þá ákvörðun að umræðunni ljúki ekki hér á eftir en ég held að þetta sé einnig hluti af stærra vandamáli.

Við þingmenn höfum margoft bent á þetta vinnufyrirkomulag hér á þingi, hversu óeðlilegt það er og hversu mikið það bitnar á vönduðum vinnubrögðum þingsins. Margoft hefur verið bent á hið óeðlilega í þessu sambandi, að dagskrá þingsins liggi ekki fyrir fyrr en kvöldið áður. Það finnast mér alveg ótæk vinnubrögð. Þetta snertir undirbúning þingmanna. Það getur tekið meira en eina kvöldstund að undirbúa sig fyrir veigamikil mál og ég skil ekki af hverju dagskrá þingsins getur ekki legið fyrir með ítarlegri hætti en raun ber vitni, sem sagt með lengri fyrirvara en kvöldið áður.

Þetta er ekki krafa um formsatriði eða tæknileg atriði. Þetta snertir þinglega meðferð mála. Þingið hefur legið undir þeirri sök að vanda sig ekki nægilega vel við lagasetningu og ítrekað hefur framkvæmdarvaldið gerst sekt um að setja lög sem eru stjórnarskrárbrot, í mun meira mæli en t.d. aðrar Norðurlandaþjóðir, og m.a. má rekja það til þess að við vöndum okkur ekki nógu mikið hérna í þinginu. Það stafar m.a. af tímaskorti og sú ábyrgð skrifast eingöngu á hæstvirta ráðherra. Þeir koma iðulega með mál með skömmum fyrirvara, oft seint á vetri og ætlast til að þessi mál, mörg viðkvæm mál, stórmál, séu afgreidd með slíku hraði að þau ná ekki að fá viðunandi meðferð. Mér finnst stundum að hv. þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem verja þessa ríkisstjórn falli átti sig ekki á því að Alþingi Íslendinga er með löggjafarvaldið.

Það liggur ekki hjá ráðherrunum en það er ekki vottur af aðhaldi hjá þessum blessaða þingmeirihluta gagnvart sínum eigin ráðherrum. Við þurfum að haga störfum okkar þannig að þetta þing sé ekki einfaldlega einhvers konar afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdarvaldið. Ég held að þetta sé hluti af stærra vandamáli. Þetta er hluti af því hvernig samskipti ráðherra og þingheims eru og við þurfum að breyta þessu vinnulagi. Við þurfum að skipuleggja okkur lengra fram í tímann. Við þurfum að fá ráðherrana með í þann leik, að þeir leggi fram mál sín með nægum fyrirvara og að þau komist á dagskrá með meiri fyrirvara en raun ber vitni.

Við þurfum að skoða það af hverju þingfundir hefjist ekki fyrr á morgnana. Þeir hefjast iðulega eftir hádegi. Reyndar eru morgnarnir teknir í nefndastörf en hins vegar er nefndarfall ítrekað í mjög mörgum nefndum vegna þess að það eru svo fá mál sem stjórnarmeirihlutinn vill hleypa úr nefndunum. Það eru ýmis atriði sem ég skil ekki af hverju menn ættu ekki að ráðast í að breyta. Það kemur okkur öllum illa að keyra málin með þessum hætti í gegnum þingið og að fá ekki betri undirbúning við stórmál, eins og hér er um að ræða.