131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[11:18]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Við ræðum hér í svip frumvarp til vatnalaga sem iðnaðarráðherra hefur mælt fyrir. Málið er afar viðamikið. Um er að ræða ný lög í staðinn fyrir önnur sem hafa lifað hér í — hvað er það nú lengi, eru þau ekki frá 1923, þau sem nú yrðu leyst af hólmi ef þetta yrði samþykkt? Mig minnir það. Jú, þau eru nr. 15/1923, þannig að þau hafa lifað hér í 82 ár, sem er nokkuð hár aldur á lögum.

Frumvarpið sjálft er líka viðamikið. Það er allmargar greinar, þetta er sem sé lagabálkur, ekki breytingar, upp á 43 greinar og í hinu hefðbundna prentformi þingsins er frumvarpið ásamt greinargerð sinni eða athugasemdum 45 síður. Hér þarf því að huga vel að og það sést ósköp einfaldlega á umfangi texta þess sem fylgir málinu.

Ég vil nota þetta tækifæri til að koma að nokkrum athugasemdum sem ég hef og spurningum um frumvarpið.

Í fyrsta lagi er það að nefna að eitt helsta atriði frumvarpsins er breyting á sjálfri skilgreiningu vatnsnota úr því sem kölluð er neikvæð skilgreining — nei, nú held ég að lögfræðinni í sjálfum mér skjöplist — heldur er um að ræða það sem við köllum jákvæða skilgreiningu, úr því sem kölluð er jákvæð skilgreining yfir í það sem kölluð er neikvæð skilgreining á eignarréttarhugtakinu sjálfu.

Þetta á sér mjög merkilega sögu eins og þessi vatnamál öll. Ég verð að skjóta því hér inn í að það er auðvitað sérstakur unaður að lesa þessi lög að ýmsu leyti, bæði þau gömlu og þau nýju, vegna þess að í þeim eru ákvæði sem eru nánast má segja — að vísu ekki alveg bókstaflega en það liggur við — við uppsprettur tungunnar því að sum ákvæði þessara laga eru nánast beint úr Jónsbók og eiga stutt að rekja til þjóðveldislaganna sjálfra með sínum tæra hljómi og skynsamlegri hugsun í flestum greinum sem þar er að finna.

Eignarréttarákvæðið á sér ekki svo gamla sögu eða sú skilgreining, hin jákvæða skilgreining eignarréttar í vatnalögunum, heldur er sú saga rakin ágætlega í frumvarpinu aftur til fyrstu áratuga 20. aldar. Þá voru mjög sterkar deilur, og minna nokkuð á þær deilur sem nú eru uppi, um það hvort þessi vatnsréttindi í heild skyldu teljast þjóðareign, þótt það orð hafi ekki verið notað á þeim tíma, eða eign einstakra manna, þeirra sem áttu land nærri vatninu. Því er lýst hér að í lokagerð laganna náðist á ákveðinn hátt málamiðlun í þessum efnum. Gengið var ansi langt í átt til þeirra sem vildu að eignarréttur manna á landi réði nýtingarrétti þeirra á vatni. En hins vegar var eftir það almenna grundvallarskilyrði eða það almenna grundvallarálit, að vatnsréttindin væru ekki einkaeign sem væri hægt að fara með eins og hver vildi heldur væri til staðar ákveðinn nýtingarréttur en vatnið væri í raun og veru í eign samfélagsins, í þjóðareign eins og við skilgreinum hana núna.

Þetta er mjög mikilvægt mál vegna þess að þessi missirin fer fram veruleg umræða um eignarréttarform. Hjá okkur stendur þetta þannig í raun og veru að lögum að ekki er viðurkennd nema ein gerð eignarréttar, nefnilega einkaeignarréttur, að mestu er það þannig. Þó höfum við ákveðin fyrirbrigði sem teljast vera í þjóðareign og það orð kemur nánast — ef það er ekki það orð þá kemur eitthvað annað mjög svipað fyrir í lögum, t.d. um Þingvelli við Öxará og önnur ýmis fyrirbrigði eru talin vera í þjóðareign, í eign allrar þjóðarinnar, en í því felst annað en einkaeignarréttur ríkisins eða einkaeignarréttur sveitarfélaga. Það sem við þurfum að gera hér á þinginu og ég hygg í samfélaginu öllu er að ræða það hvernig við viljum haga þessum eignarréttarmálum okkar til frambúðar. Það eru ýmis form á eignarrétti, allt frá því að vera í raun eignarréttur á þeim hlutum sem óáþreifanlegastir eru en skipta okkur þó máli, svo sem andrúmsloftið eða norðurljósin. Þar er kannski ekki um neinn eignarrétt að ræða heldur ákveðna skyldu mannkynsins alls til umsjár. Svo höfum við auðvitað það sem gæti verið einhvers konar eign eða umsjárskylda margra þjóða og ríkja. Síðan höfum við þjóðareign sem dæmið um er ágætt, Þingvellir eða t.d. Skarðsbók sem var gefin þjóðinni á sínum tíma. Hún var ekki gefin ríkinu heldur þjóðinni sjálfri. Ríkið á ekki Skarðsbók heldur er það þjóðin sem á Skarðsbók, ríkið fer fyrir hönd þjóðarinnar með þá eign sem er af öðru tagi en t.d. jörð, skrifborð eða hátalari sem ríkið hefur keypt og á á sama hátt og einstaklingur sem á fasteign, skrifborð eða segulband.

Vegna þess að svo er háttað um þetta mál er óskynsamlegt að breyta þeim forsendum sem gömlu vatnalögin byggja á, það er óskynsamlegt að gera það núna. Málið um eignarréttinn og tegundir hans er í mikilli umræðu um þessar mundir. Sú umræða nær meira að segja til hæstv. ríkisstjórnar. Þó að hún sé nú ekki alltaf inni í því sem er að gerast í samfélaginu, þá er að ég hygg í sáttmála ríkisstjórnarinnar ákvæði um það að auðlindir hafsins verði gerðar að þjóðareign með sérstökum stjórnarskrárbreytingum. Þar er um að ræða sem sé auðlindirnar í hafinu, en hafið er sem kunnugt er vatn, blandað ýmsum öðrum efnum en þó ákaflega skylt því vatni sem rennur á landi og þessi vatnalög ná yfir. Við erum því hér á ákaflega svipuðum slóðum og óhyggilegt að fara að negla niður eða breyta eignarréttarmálum á vatni meðan við höfum ekki gengið frá þessu verkefni sem ég tel að sé eitt af verkefnum okkar áratugar í samfélagsmálum og í stjórnmálum hér á þinginu.

Enn þá óskynsamlegra er að breyta hinni jákvæðu skilgreiningu á eignarrétti að vötnum yfir í neikvæða. Hin jákvæða skilgreining, sem svo heitir, gerir ráð fyrir að allur nýtingarréttur sé upp talinn, það sé klárt hvað má og annað sé bannað vegna þess að sá sem nýtir vatnið er ekki eigandi að því, hann getur ekki gert við það hvað sem honum sýnist. Hann má ekki eyða því með t.d. mengun eða einhverjum öðrum hætti heldur má hann nýta með hætti A, hætti B, hætti C o.s.frv. Þetta er kölluð jákvæð skilgreining.

Hin neikvæða skilgreining, sem er eitt meginefni þessa frumvarps, felst hins vegar í því að sá sem eignarréttinn hefur má gera allt við vatnið, allt sem honum sýnist, allt sem honum hugkvæmist nema það sem menn hafa haft skynbragð á og vit til að festa í lög. Það sem hann má ekki gera er A, B, C, D o.s.frv. Ég tel þetta grundvallarmál og er ekki sammála höfundum greinargerðarinnar um að þetta skipti engu máli og vegna þess að hin neikvæða skilgreining gildi um marga aðra hluti, fasteignir og lausamuni ýmsa og fé, þá sé bara réttast að setja vatnið þar og það sé einfaldast. En það er ákveðin ástæða til þess að vatnið er skilgreint svo í lögum okkar sem nú standa, ástæður sem eru einmitt raktar ágætlega í greinargerð frumvarpsins og varða auðvitað eðli þess sem við erum hér að fást við, eðli vatns, þessarar lífsuppsprettu manns og alls lífs á jörðinni og þess meginafls í náttúrunni sem við hér á Íslandi könnumst við í ótrúlega fjölbreytilegri formum en almennt er um fólk í heiminum.

Ég lýsi yfir andstöðu minni við þessar breytingar og hef varið nokkuð löngum tíma hér í að skilgreina þá andstöðu vegna þess að mér finnst það eitt mikilvægasta málið.

Ég vil svo í öðru lagi, og ætla nú að fara fljótar yfir, vara við þeirri aðferð að allt vatn sé tekið í þessi sérstöku lög án þess að hin margvíslegu not og hinar margvíslegu aðstæður okkar við að nota vatnið, njóta þess og nýta það með ýmsum hætti séu fullkomlega skilgreind.

Í þriðja lagi sem er mjög tengt vil ég teikna upp mikið og stórt spurningarmerki við það, reyndar eins og fyrsti hv. ræðumaður dagsins að loknum inngangi iðnaðarráðherra, að þessi lög séu á valdsviði iðnaðarráðherra. Það er ekki sjálfsagt. Það er í raun og veru tilviljun. Lögin nr. 15 frá 1923 eru sett þegar ríkisstjórn Íslands er þannig skipuð að einn er forsætisráðherra, annar er fjármálaráðherra og hinn þriðji er með öll önnur svið og var kallaður atvinnuráðherra eða atvinnumálaráðherra. Honum var eðlilega falin umsjón þessara mála þar sem þau féllu náttúrlega ekki undir forsætisráðherrann og ekki undir fjármálaráðherrann. Það er síðan ákveðin tilviljun og sögulegur þráður sem auðvitað er gaman að rekja en er engan veginn sjálfsagt náttúrulögmál að vatnalög skyldu hafa lent undir iðnaðarráðherra í því kerfi sem var fyrir 1990. Í raun og veru hefði verið fullkomlega eðlilegt að setja þau annaðhvort öll eða að hluta undir umhverfisráðherra þegar það ráðuneyti varð til, árið 1990 að ég hygg eða a.m.k. um það leyti.

Þegar við erum núna að breyta vatnalögunum, sé á því þörf, eigum við einmitt að ræða það í þaula hvað af þeim á að vera undir iðnaðarráðherra og hvað undir umhverfisráðherra eða hvort þau eiga öll að fara undir umhverfisráðuneytið.

Þessum vilja iðnaðarráðherrans — sem frumvarpið semur — að hafa þetta allt undir sér og eftirmönnum sínum fylgir auðvitað, í fjórða lagi, að sú stofnun sem á að fara með þessi mál og hafa yfir þeim yfirumsjón er Orkustofnun. Nú er Orkustofnun að breytast frá því sem áður var. Það er búið að kljúfa hana í tvennt, skipta henni upp. Hins vegar sé ég ekki að þær breytingar séu orðnar svo stórfenglegar að Orkustofnun sé í raun og veru orðin alvöruumhverfisstofnun á borð við þær stofnanir sem nú eru til, Umhverfisstofnun annars vegar, sem svo heitir, og hins vegar Náttúrufræðistofnun, rannsóknir og stjórnsýsla, að … Hér verð ég, forseti, að fagna því einlæglega að inn gengur sjálfur formaður iðnaðarnefndar, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, og harma ég það að hann skuli ekki hafa verið hér áheyrsla umræðunnar fyrr í dag. En það er ekki hans sök, ég vil taka það mjög skýrt fram, vegna þess að honum hefur sjálfsagt ekki verið kunnugt um að málið væri hér á dagskrá, eða kunnugt um það svo seint að hann gat ekki gert þær ráðstafanir að koma hér á réttum tíma. (BJJ: … umræður um málið …) Mér er ekki kunnugt um það en vaninn er sá að formenn nefnda séu á staðnum þegar rætt er um mál sem undir þá heyra eða þá einhverjir staðgenglar þeirra þegar um það er að ræða.

Forseti. Ég biðst afsökunar á því að hafa svarað þingmanninum hv. beint en svona vill þetta stundum verða.

Ég var að tala um Orkustofnun og ég veit að þar vinnur margt gott fólk sem hefur mikið vit á bæði nýtingu auðlinda og líka á notum þeirra fyrir mannskepnuna og lífríkið að öðru leyti, margir menn með góða umhverfisvitund. Ég efast samt um að Orkustofnun sé til þess fallin miðað við sögu sína og bakgrunn að eiga við öll þau mál sem nú á að fela henni, í ramma bæði frumvarpsins um jarðrænar auðlindir og þessara vatnalaga.

Að lokum vil ég segja — ég ætla ekki að fara hér í atriði máls, ég vona að það verði gert síðar — að ég tek undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur sem sagði áðan að eðlilegt væri að umhverfisráðherra væri viðstaddur þessa umræðu. Það háttar svo til um þetta mál að því er við teljum, ýmis hér, að það er allt eins á sviði þess ráðherra. Ég ber fram þá frómu ósk að heyra hvað sá ráðherra, hæstv. umhverfisráðherra, leggur til málsins í þessari umræðu.

Í blálokin vil ég draga ræðu mína þannig saman að ég tel að betra sé að þetta frumvarp bíði. Eignarréttarbreytingar þess eru þannig að það væri ráð að það biði betri og nánari umræðu um eignarréttarmálin almennt í lögum okkar um auðlindir okkar og biði líka vegna þess að sennilega eru tímarnir ekki orðnir nógu þroskaðir til þess að við tökum jafnstórfenglegar ákvarðanir í auðlindamálum okkar og þessi vatnalög eru dæmi um.

Mig minnir þannig, forseti, að í frumvarpinu um jarðrænar auðlindir sé meiningin að gera þær breytingar sem óhjákvæmilegar þykja þeim sem það flytur en síðan átti að stofna nefnd sem átti að ræða sérstaklega auðlindamál önnur og framtíðartilhögun þeirra. Ég spyr hæstv. iðnaðarráðherra, þó að ég viti að hún svari því ekki fyrr en í síðari hluta þessarar umræðu, af hverju vatnalögin, þau sem nú eru og hugsanlega breytingar á þeim, eru ekki viðfangsefni þeirrar nefndar frekar en að þau séu sett í gegnum þingið og greinilega rekin áfram með þeim hraða sem raun ber vitni.

(Forseti (ÞBack): Vegna beiðni tveggja hv. þingmanna um viðveru hæstv. umhverfisráðherra vill forseti geta þess að hæstv. umhverfisráðherra hefur fjarvistarleyfi í dag.)