131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[11:52]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sannarlega á því að við þurfum að nýta okkar auðlindir, þar á meðal vatnið. Ég tek það hins vegar ekki til baka að mér hefur fundist að þessi ríkisstjórn væri á fullri ferð í því að reyna að koma á einkaeignarrétti og nýtingarrétti af öllu tagi þar sem hún kemur því við.

Varðandi þjóðlendumálin verð ég að viðurkenna að ég hef þá skoðun að ríkið hafi ekki átt margra kosta völ annarra en láta reyna á ýmislegt af því tagi sem var uppi um ágreining hvað þjóðlendurnar varðaði fyrir dómstólum. Hvernig menn líta svo á einstök ágreiningsefni hvað það varðar getur verið með ýmsu móti. Ég geri ráð fyrir því líka að svo muni verða með mjög mismunandi hætti eftir því hvar er á landinu því það hagar ekki alls staðar eins til hvað varðar þessar þjóðlendur og forna nýtingu á löndum og hálendinu sem tilheyrir og verið er að takast á um. Mér finnst því í sjálfu sér að þessi átök um fjöllin og heiðarnar á Suðurlandi eigi ekki mikið erindi í þá umræðu sem ég hafði uppi.

Hæstv. ráðherra er eitthvað viðkvæm fyrir þessari umræðu sem ég var með og mér finnst það í sjálfu sér gott. Það bendir til þess að eitthvað af því sem ég sagði hafi vakið þann part af samviskunni sem eftir er.