131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[11:55]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sagði í fyrsta lagi í ræðu minni að ég teldi alveg ástæðu til að skoða þetta mál og fara vandlega yfir það og útilokaði ekkert að breytingar gætu orðið hvað varðar þessi málefni og varðandi ný lög þá þurfa menn að taka sér góðan tíma til þess.

Annars vegar talar ráðherrann um formbreytingu sem maður skilur yfirleitt þannig að þá sé í raun ekkert að breytast heldur að menn séu að breyta forminu. En í hinu orðinu hoppar hæstv. ráðherra yfir í að saka okkur um að vilja verja einhvers konar þjóðnýtingu. Eru vatnalögin einhvers konar þjóðnýtingarplagg? Ef þau standa áfram er þá einhver þjóðnýting í gangi? Hvers lags vitleysa er þetta? Ég átta mig ekki alveg á því hvað ráðherrann er að fara. Ég tel að þetta sé vandmeðfarið mál, að hér séu á ferðinni gríðarlega margs konar og marglitir hagsmunir fólks, þjóðarinnar og fyrirtækjanna. Ég sé enga ástæðu til að menn flýti sér mikið í málefni af þessu tagi þegar ekki hefur verið bent á eitt einasta atriði sem styður það að aðkallandi sé að ljúka endurskoðun á þessum lögum. Hæstv. ráðherra mótmælti því ekki sem ég sagði áðan og ég hef fyrir því heimildir að það hefur ekki verið stórkostlegt verkefni í réttarkerfinu á Íslandi að takast á um mál sem varða vatnalögin. Af hverju hefur það ekki verið? Vegna þess að menn hefur ekki greint á um hvaða reglur séu í gildi. Þess vegna liggur ekkert á. Það er ekki þar með sagt að ekki megi skoða þetta og fara vandlega yfir þetta og fyrir fram er ég alls ekki að segja að ég sé á móti því að það komi ný lög um þessi efni.