131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Félagsleg undirboð á vinnumarkaði.

[13:44]

Guðjón Hjörleifsson (S):

Herra forseti. Í gildi er samkomulag milli Impregilo og landssambanda ASÍ sem eiga aðild að samráðsnefnd um virkjanasamninga. Í 2. gr. samningsins stendur, með leyfi forseta:

„Aðilum er ljóst að sérstakar aðstæður skapast þegar starfsmenn í ráðningarsambandi við erlend fyrirtæki undir erlendum lögum eru sendir til starfa á Íslandi. Aðilar árétta þann skilning að hlutaðeigandi starfsmenn njóti áfram þeirra réttinda sem ráðningarsamningar þeirra kveða á um. En í þeim tilvikum þar sem réttindi samkvæmt virkjanasamningi eða íslenskum lögum eru starfsmönnunum hagkvæmari gildir hið síðarnefnda.“

Samkomulag þetta kveður á um hvernig tryggt verði að ákvæði virkjanasamnings um að lágmarkskjör verði virt við uppgjör á launum erlendra starfsmanna sem greidd eru árslaun sín í 12 mánaðarlegum greiðslum. Einnig er rætt um framlag í lífeyrissjóði, staðgreiddan tekjuskatt að teknu tilliti til persónuafsláttar. Í samkomulaginu kemur fram að það sé hlutverk trúnaðarmanna stéttarfélaga á vinnustað að ganga úr skugga um að gerðir kjarasamningar séu haldnir gagnvart starfsfólki. Stjórnvöld hafa ekki heimild til að kanna launakjör almennt á vinnumarkaði, hvorki hjá útlendingum né öðrum. Það er og verður að vera frumkvæði stéttarfélaga og viðkomandi trúnaðarmanns að gæta hagsmuna félagsmanna sinna telji þeir að brotið sé á mönnum samkvæmt samningum.

Herra forseti. Á fundi félagsmálanefndar kom það fram að töluvert hefur verið gert af því að bjóða fólki vinnu sem er á atvinnuleysisskrá en viðbrögð hafa því miður ekki verið mikil. Samkvæmt upplýsingum sem fram komu á fundi félagsmálanefndar hefur gengið illa að fá innlenda iðnaðarmenn, vélamenn eða byggingarverkamenn til starfa við Kárahnjúka sem segir okkur að atvinnuástand þessara starfsstétta sé mjög gott.

Samkvæmt sjónvarpsfréttum í gærkvöldi er mikil uppbygging á íbúðamarkaði. Ég hef meiri áhyggjur af því að sú umræða sem stjórnarandstaðan hefur verið með verði til þess að verktakar sem bundnir eru samningum um afhendingu íbúða fari að ráða fleira starfsfólk utan EES-svæðisins til sín og það getur haft mikil áhrif á vinnumarkaðinn til framtíðar litið. Það er líka áhyggjuefni hve margir eru atvinnulausir hér á landi og að ekki sé hægt að koma hluta þeirra í vinnu þegar mikið framboð er af störfum.

Hvað varðar aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum gilda sérstök lög og samkvæmt þeim hefur Vinnueftirlit ríkisins það eftirlitshlutverk sem gerir skýlausar kröfur um öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum. Svo langt getur Vinnueftirlitið gengið að ef atvinnurekandi verður ekki við kröfum þess um úrbætur er hægt að beita atvinnurekandann þvingunarúrræðum. Eftirlitsþátturinn er til þess fallinn að koma í veg fyrir félagsleg undirboð hvað varðar aðbúnað starfsmanna án tillits til þjóðernis þeirra.