131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Félagsleg undirboð á vinnumarkaði.

[13:46]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Herra forseti. Ef ég stæði frammi fyrir því vali í dag til hvers 100 milljarðar af opinberu fé yrði varið, annars vegar til stíflugerðar eins og þekkist nú að Kárahnjúkum og hins vegar til nýsköpunar jafnt á landsbyggðinni sem á höfuðborgarsvæðinu yrði seinni kosturinn valinn.

Persónuleg afstaða mín að þessu leyti breytir því ekki að ríkisstjórn Íslands ákvað að verja 100 milljörðum kr. til stíflugerðar að Kárahnjúkum, sem aftur leiðir til þeirrar umræðu sem við stöndum frammi fyrir í dag. Ófyrirséðir atburðir sem snúa að verkfræðilegum þætti stíflugerðarinnar hafa valdið miklum töfum á verkinu en með auknu framkvæmdastigi í janúar og febrúar á þessu ári átti að mæta töfunum og um leið tryggja verkskil á réttum tíma.

Sökum þessa hefur verktakinn leitað til kínverskra verktaka og iðnaðarmanna sem vanir eru hliðstæðum veðurfarslegum aðstæðum og jafnframt verkum af þessu tagi í heimalandi sínu. Á meðan íslenskir verkamenn fást ekki til starfa á svæðinu og á meðan flestir Suður-Evrópubúar geta ekki hugsað sér að starfa við þessar erfiðu veðurfarslegu aðstæður verðum við að tryggja aðgengi verkamanna, m.a. frá Kína, til starfa á svæðinu. Þeir Kínverjar sem fyrir eru á svæðinu hafa að sögn kunnugra reynst frábærir starfsmenn í þessu harðgerða umhverfi.

Þegar kemur að aðbúnaði og aðstöðu starfsmanna í sjálfum búðunum er að mínu mati upp á lítið að klaga. Ég tel mikilvægt fyrir embættismenn að kynna sér aðstæður frá fyrstu hendi áður en dómar eru látnir falla um þessi mál. Að mínu viti tekur aðbúnaður starfsmanna á svæðinu flestu fram sem ég hef kynnst til sjós en sjálfur var ég sjómaður á bæði minni og stærri skipum um tíu ára skeið.

Herra forseti. Í efnahagslegum skilningi er þjóðarnauðsyn á því að verkinu verði skilað á réttum tíma. Ef til tafar kemur er áætlað tekjutap Landsvirkjunar um 6 milljarðar kr. á ári og þar fyrir utan gæti komið til skaðabótakrafna á hendur félaginu. Því er mikil nauðsyn fyrir samátaki þjóðarinnar svo að tryggt verði að orkusala Landsvirkjunar hefjist á réttum tíma.