131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Félagsleg undirboð á vinnumarkaði.

[13:48]

Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Reynslan við Kárahnjúka hefur sýnt okkur að vegna skilningsleysis stjórnvalda er verulegur skortur á því að opinberir eftirlitsaðilar hafi möguleika til þess að rannsaka meint brot og grípa inn í þegar sýnt er að atvinnurekandi er að brjóta lög og reglur sem gilda á íslenskum vinnumarkaði. Impregilo hefur skapað sér það orðspor að það laðar ekki að sér starfsfólk. Þar vantar fólk til starfa og ég hef efasemdir um að vinnumiðlanir landsins séu að leita að fólki í þau störf sem laus eru á svæðinu. Hafa þær verið beðnar um það? Trúlega ekki. Enn eru gefin út ný atvinnuleyfi og svo heppilega vill til fyrir ráðherra að í dag á að skoða umsóknir Íslendinganna sem sótt hafa þar um vinnu. Hvenær á að skoða umsóknir sem borist hafa í gegnum EURES?

Er það virkilega svo að öll þau vandamál sem upp hafa komið hjá ítalska verktakafyrirtækinu að Kárahnjúkum séu lítilvæg af því að hér er um sérstakt hagsmunamál ríkisstjórnarinnar að ræða? Engin lög eru um starfsemi erlendra starfsmannaleiga hér á landi, hyggst ráðherra beita sér fyrir því að þau verði sett?

Einstaklingar og fyrirtæki hérlendis eru í auknum mæli að flytja inn starfsmenn frá löndum þar sem kjör eru langt undir því sem hér tíðkast. Þeir starfsmenn koma hingað og vinna í neðanjarðarhagkerfinu í svartri vinnu, á veitingastöðum, í byggingarvinnu og við fleiri störf án allra réttinda eða trygginga á nokkurn hátt með laun undir lágmarkslaunum, búa í ófullnægjandi húsnæði og þekkja ekkert til aðstæðna hér.

Hér á landi gilda ákvæði um lágmarkskjör og lágmarksréttindi og gilda þau fyrir alla sem hér starfa. Hyggst hæstv. félagsmálaráðherra beita sér fyrir því að sett verði viðurlög sem beitt yrði gegn þeim sem fara svona með fólk? Eða verða svör ráðherra eina ferðina enn á þá leið að benda á aðra eins og hann hefur ítrekað gert í fjölmiðlum síðustu vikurnar?

Hvenær ætlar hæstv. ráðherra að svara ágætri greinargerð Alþýðusambandsins frá því 9. janúar sl.?