131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Félagsleg undirboð á vinnumarkaði.

[13:51]

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að hefja umræðu um félagsleg undirboð. Það er grafalvarlegt mál ef það er rétt að útlendingum hér á landi séu ekki greidd laun í samræmi við kjarasamninga. Verkalýðshreyfingin hefur í tugi ára staðið vörð um hagsmuni og réttindi launþega hér á landi. Alþýðusambandið hefur haldið vöku sinni í þessu máli sem öðrum og hefur tekið saman greinargerð þar sem grunsemdir eru um að dæmi séu um slíkt á íslenskum vinnumarkaði.

Hæstv. félagsmálaráðherra, Árni Magnússon, hefur brugðist við þeim ávirðingum og tekið málið m.a. upp á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Þeim viðbrögðum ráðherra ber að fagna. Starfshópur er nú að störfum sem hefur það hlutverk að fjalla um stöðu starfsmannaleiga hér á landi. Sá hópur er enn að störfum. Vonandi mun starfshópurinn skila af sér fljótlega enda er um mjög aðkallandi mál að ræða sem við þurfum að bregðast við til framtíðar litið. Hér eru nefnilega í húfi hagsmunir íslensks launafólks og ef félagsleg undirboð munu viðgangast í framtíðinni er alveg ljóst að kaupmáttur almennings mun minnka verulega. Slíkt er ekki stefnumið ríkisstjórnarinnar enda hefur engin ríkisstjórn í veröldinni aukið kaupmátt almennings eins mikið og ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á umliðnum tíu árum. Við hljótum því að taka þessi mál alvarlega og ég styð íslenska verkalýðsbaráttu í þeirri hagsmunabaráttu sem hún stendur í til hagsbóta fyrir íslenskan almenning.