131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Félagsleg undirboð á vinnumarkaði.

[13:55]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að hefja umræðuna. Ég tel mjög mikilvægt að við ræðum hér á þessum vettvangi sem og annars staðar um íslenskan vinnumarkað og þær aðstæður sem eðli málsins samkvæmt eru uppi varðandi breytingar í tengslum við alþjóðavæðingu.

Ég er þeirrar skoðunar að við séum afskaplega lánsöm, Íslendingar, að hafa vinnumarkaðsreglur eins og þær sem eru hjá okkur í dag. Við þurfum ekki annað en að bera okkur saman við önnur lönd til þess að sjá af hverju það er. Ég tel afskaplega mikilvægt að við höldum vörð um þær reglur sem hafa verið til staðar.

Menn skyldu átta sig á því að þegar talað er um aðrar leiðir og þá væntanlega að hið opinbera, í þessu tilfelli löggjafinn og framkvæmdarvaldið, taki virkari þátt í vinnumarkaðnum en raun ber vitni erum við að fara á brautir eins og t.d. Frakkland, Spánn og önnur slík lönd og erum þar af leiðandi að veikja aðila eins og verkalýðsfélögin og aðila vinnumarkaðarins, það liggur alveg hreint og klárt fyrir. Sá sem hér stendur er ekki áhugamaður um slíkt.

Ég horfi á tölur, tölurnar segja að hér er atvinnuleysi um 2,7% meðan þau lönd sem við berum okkur saman við, t.d. Evrópusambandið, eru með atvinnuleysi að meðaltali 7% og fer allt upp í 18%. Þrátt fyrir það, eðli málsins samkvæmt, eigum við að taka á þeim vandamálum sem uppi eru og það er ekkert séríslenskt. Þegar eru uppi vandamál sem tengjast alþjóðavæðingunni eigum við ekki að fórna því góða sem við höfum nema við séum nokkuð viss um að eitthvað betra komi í staðinn.

Við horfum á gott ástand á Íslandi og tökumst á við málin út frá þeirri forsendu. Það eru miklar virkjanaframkvæmdir núna, það eru virkjanaframkvæmdir í nánustu framtíð hvort sem það er Hellisheiði, Reykjanesvirkjun og fleira mætti til nefna og á sama tíma tölum við um miklar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og að stærstum hluta hjá einkaaðilum. Þetta er eðli málsins samkvæmt staða sem er góð en ég fagna umræðunni og vona að hún verði málefnaleg því það er mjög mikilvægt í þessu mikilvæga og stóra máli.