131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Félagsleg undirboð á vinnumarkaði.

[13:57]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það stendur upp á íslensk stjórnvöld að móta heildarstefnu í málefnum erlends vinnuafls því svo virðist vera að innflutningur á erlendu vinnuafli sé alveg stjórnlaus, án nauðsynlegs eftirlits og öll framkvæmd í skötulíki.

Svör hæstv. ráðherra áðan valda miklum vonbrigðum. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hver er afstaða hans til þess að setja lög um starfsmannaleigur? Ég spyr ráðherrann: Telur hann ekki að herða þurfi stórlega eftirlit með félagslegum undirboðum eða rýmka heimildir verkalýðshreyfingarinnar til aðgerða gegn fyrirtækjum sem stunda félagsleg undirboð?

Það verður að herða miklu meira ákvæði í reglugerð um atvinnuréttindi útlendinga en hæstv. ráðherra boðar. Undan því verður ekki vikist að reisa allar þær girðingar sem þarf til að verja grundvallarréttindi launafólks gegn félagslegum undirboðum sem öllu samfélaginu stendur ógn af. Ef stjórnvöld eru með einhver vettlingatök í þessum málum gagnvart erlendum stórfyrirtækjum eða starfsmannaleigum sem hingað flytja inn vinnuafl er það alvarleg ógn við kjör og aðbúnað launafólks og ólíðandi fyrir íslensk fyrirtæki að félagsleg undirboð í launum og kjörum erlends vinnuafls skekki alla samkeppnisstöðu í atvinnulífinu.

Áhrifanna af félagslegum undirboðum er þegar farið að gæta mjög í íslensku samfélagi, ekki bara á Kárahnjúkasvæðinu heldur miklu, miklu víðar. Innan verkalýðshreyfingarinnar er því t.d. haldið fram að nú séu á vinnumarkaðnum, sérstaklega í byggingariðnaðinum og í veitinga- og gistihúsastarfsemi, útlendingar hundruðum saman sem komið hafa til landsins með ólöglegum hætti þar sem stunduð er svört atvinnustarfsemi og undirboð, m.a. í skjóli atvinnurekenda.

Ég spyr, hæstv. forseti: Á ekkert að rannsaka þetta? Hæstv. ráðherra verður að svara þessu. Félagsmálaráðherra og stjórnvöld bera fulla ábyrgð á þessari þróun og geta aldrei undan henni vikist. Ég skora á hæstv. félagsmálaráðherra að grípa þegar til nauðsynlegra aðgerða og ráðstafana áður en í algjört óefni er komið.