131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[14:24]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þessi umræða fer fram undir liðnum Skýrsla iðnaðarráðherra um framkvæmd raforkulaga. Hún er í raun framhald umræðu um raforkulögin sem varð vegna lagfæringar á raforkulögunum fyrir áramótin. Þá átaldi ég og fleiri að ekki fengist skýrari mynd af stefnu og framtíðarsýn stjórnvalda í raforkumálum. Þá strax, áður en lögin tóku gildi, var á ferðinni skyndiplástur á raforkulögin sem voru sett á síðasta þingi. Um áramótin gekk svo þetta nýja umhverfi í raforkugeiranum í gildi. Framleiðsla, flutningur, sala og dreifing á raforku er núna að hluta komin í einhvers konar viðskiptaumhverfi sem menn ætla að reyna að sveigja að einhverjum skynsamlegum viðskiptaháttum.

Það eru mörg spurningarmerki við það hvernig þetta muni allt ganga. Fyrstu afleiðingarnar eru að koma í ljós og þær eru gríðarlegar hækkanir á raforku til húshitunar svo dæmi séu tekin og heildarhækkun á raforkuverði í landinu öllu. Ég hygg að menn deili ekki um að með þessu fyrirkomulagi eða þessari breytingu hafi orðið heildarhækkun á raforkuverðinu.

Getur verið að hæstv. iðnaðarráðherra, sem svo vill til að er ráðherra byggðamála, hafi ekki haft grun um að í þessar hækkanir á raforku til húshitunar stefndi? Einungis var gert ráð fyrir 230 millj. kr. aukningu á niðurgreiðslum eða peningum í þessu efni í fjárlögunum og hæstv. ráðherra gerði grein fyrir því hér að þær mundu duga til þess sem þeim var ætlað. En það dugar ekki til. Það hefur sem sagt skort á undirbúning hjá hæstv. ráðherra iðnaðar- og byggðamála og hún hlýtur að verða hugsi þegar hún fær, svo ég taki dæmi, þessa sendingu frá stjórn Búnaðarsambands Strandamanna:

„Stjórn búnaðarsambandsins mótmælir hækkunum á raforkuverði á Vestfjörðum. Hækkanirnar eru alvarleg aðför að atvinnulífi og búsetu í dreifbýli á Vestfjörðum. Því verður vart trúað að það hafi verið ætlun Alþingis með setningu raforkulaganna að þvinga Orkubú Vestfjarða til að féfletta dreifbýlisbúa á Vestfjörðum.“

Ég ætla ekki að lesa þetta lengra en þeir nefna hér dæmi um 45% hækkun á raforku til húshitunar á þessu svæði. En ég fagna því auðvitað að hæstv. ráðherra lýsti því hér yfir að ekki stæði til að menn bæru það óbættir.

Fleiri hafa orðið fyrir hækkunum t.d. garðyrkjubændur og fiskeldisfyrirtæki hafa líka borið sig illa. Hæstv. ráðherra fór ekki yfir það hvernig taka ætti á þeim málum og er ástæða til að hæstv. ráðherra geri grein fyrir því hér í framhaldinu.

Þessar hækkanir eru í raun hliðarverkanir. Þær eru í raun mismunur fyrri orkureikninga og þeirra sem væntanlegir eru, sem var í raun mætt áður með niðurgreiðslum almennings á viðkomandi svæði til þeirra aðila sem nú þurfa að þola hækkanir á raforkuverðinu. Fólkið á þéttbýlisstöðunum sem hitar hús sín með rafmagni og kaupir aðra orku var að greiða niður húshitun í dreifbýlinu á viðkomandi svæði til viðbótar við þá niðurgreiðslu sem ríkið leggur fram. Viðskiptavinir Rariks og Landsvirkjunar greiddu niður raforku til garðyrkju og fiskeldis og sú spurning á auðvitað fyllilega rétt á sér hvort það hafi verið eðlilegt fyrirkomulag. Það er auðvitað eðlilegra að niðurgreiðslur af þessu tagi komi úr sameiginlegum sjóðum allra landsmanna en að þær komi frá viðskiptavinum einstakra fyrirtækja. Málið snýst ekki um hvort þessar niðurgreiðslur hafi verið til staðar heldur hvort leggja eigi þær af eða koma með þær aftur með einhverjum öðrum hætti.

Ég verð að segja alveg eins og er að traust mitt á öllum þeim breytingum sem hér eru að koma til minnkar mikið ef engir möguleikar eru á því þegar um er að ræða svo stóra viðskiptaaðila og þá sem kaupa raforku til húshitunar í landinu að þeir fái betri samninga hjá þeim fyrirtækjum sem selja rafmagn. Mér finnst furðulegt ef niðurstaðan er sú að það komi ekkert út úr þeim.

Ég vil meina að fólk sem hitar hús sín með rafmagni og fyrirtæki sem nýta rafmagn til húshitunar hljóti með einhverjum hætti að geta kallað fram samninga við raforkuframleiðendur sem eru betri en þeir sem hér um ræðir, því þarna eru á ferðinni nokkuð mikil viðskipti með raforku í landinu.

Ég hef kvartað undan því í mörgum ræðum á hv. Alþingi á undanförnum árum að hér hefur aldrei fengist grundvallarumræða um það að hverju stjórnvöld stefna í þessum efnum hvað varðar eignarhald og framtíð fyrirtækja í raforkugeiranum. Hæstv. ráðherra brá ekki vana sínum núna. Nú ræddi hæstv. ráðherra bara um raforkuverðið og ekkert annað. Það er út af fyrir sig gott og ágætt að hæstv. ráðherra skyldi gera grein fyrir því. En þegar ég ræddi við hæstv. ráðherra hér fyrir jólahlé, þá vonaðist ég til þess að sú umræða sem þá yrði færi fram um fleira en það, færi fram um þá grundvallarbreytingu sem er að verða, færi fram um hvers konar fyrirtæki verða á þessum markaði. Það liggur fyrir að ríkisstjórnin, a.m.k. hefur það komið fram í fréttum og ekki verið borið til baka, stefnir að því að sameina fyrirtæki í þessum geira, vill sameina Orkubú Vestfjarða, Rarik og Landsvirkjun og leysa Akureyri og Reykjavík út úr eignarhaldinu á Landsvirkjun, sem er út af fyrir sig gott mál. En sameining þessara fyrirtækja er auðvitað ekki skilaboð um að margir keppendur verði á þessum markaði. Það eru skilaboð um að þeir verði bara tveir. Það eru skilaboð til hinna að þeir þurfi líka að sameinast til að geta staðið í samkeppni við þetta stóra ríkisfyrirtæki sem þarna er verið að búa til. Ætla menn að gera þetta?

Ég tel að full ástæða sé til að ræða þetta mál vandlega. Mér finnst það dálítið undarlegt þegar hæstv. ráðherra mætir hér til umræðunnar, að hún skuli ekki einu sinni nefna hvað hangir á spýtunni í þessum stóru málum.

Ég nefndi áðan að full ástæða væri til að menn leystu Reykjavík og Akureyri út úr Landsvirkjun. Það er líka full ástæða til að skoða það eignarhald og þá eignamyndun sem þar hefur orðið á undanförnum árum. Það hefur aldrei verið eðlilegt að þessi tvö bæjarfélög ættu í Landsvirkjun. Þarna hefur orðið eignamyndun sem ég er ekki að segja að eigi með einhverjum hætti að taka til baka, en það á auðvitað að skoða það hvort önnur sveitarfélög í landinu eigi ekki heimtingu á því að sá arður sem þarna hefur orðið til handa Akureyringum og Reykvíkingum verði með einhverjum svipuðum hætti til staðar fyrir þá sem hafa búið úti á landi og byggt upp eigið fé í Rarik, svo ég nefni dæmi. Ég tel að það sé fullkomlega messunnar virði að velta því fyrir sér hvort ekki eigi að sjá til þess að úr þessum ríkisfyrirtækjum verði fleiri en eitt til.

Mér finnst að það þyrfti nú að koma fram í umræðunni hvort stjórnvöld eru ekki tilbúin til þess að nota afl sitt a.m.k. á þessum markaði til að reyna að tryggja það að til verði þrjú, fjögur, helst fimm fyrirtæki á markaðnum sem geti keppt um hylli notendanna, hylli þeirra sem vilja kaupa raforku. Það er vel hægt að hugsa sér að Rarik verði eitthvað breytt. Það þarf ekkert að vera endilega það fyrirtæki sem það er í dag. Það er auðvitað hægt að sameina önnur fyrirtæki á þessum markaði og búa til stærri einingar en eru núna til staðar, en ef ekki er til einhver stefna, þá verður aldrei neitt annað en það sem ríkisstjórnin vill. Ríkisstjórnin vill fara með veggjum með sín mál og kasta þeim síðan fram á Alþingi þegar búið er að ná einhverri pólitískri niðurstöðu. Það hefur aldrei fengist fram nein umræða inn í sali Alþingis um hvað menn vilja gera. Menn hafa ekki verið tilbúnir að leggja spilin á borðið. Ég geri þá kröfu enn einu sinni að það verði gert. Hér er of mikið í húfi.