131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[15:05]

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir ágæta yfirferð um nýskipuð raforkulög sem eru mjög flókin eins og endurspeglast hefur í umræðunni.

En fyrst vil ég segja um ræðu síðasta hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar, þar sem hann stóð hér og fórnaði höndum og talaði sífellt um vandamál: Hér eru engin vandamál á ferðinni. Hér eru akkúrat verkefni (Gripið fram í: Okkar bensín.) til úrlausnar fyrir okkur stjórnmálamennina, verkefni sem við höfum verið að ráðast í. Það mætti halda það af ræðu hv. þingmanns að hann vildi ekki reyna að leysa úr þeim flóknu viðfangsefnum sem hér blasa við.

Á ræðu hv. þingmanns áðan mátti líka skilja að húshitunarkostnaður landsmanna hefði stóraukist á umliðnum árum. Það er rangt. Það er villandi málflutningur vegna þess að kostnaður við húshitun á landsbyggðinni hefur verið að lækka í tíð núverandi ríkisstjórnar og hefur bætt og styrkt byggðir víða um land því hér er um mjög mikið hagsmunamál byggðanna að ræða og framsóknarmenn og sjálfstæðismenn hafa skilning á þeim úrlausnarefnum sem við glímum við.

Hæstv. forseti. Sú nýskipan raforkumála sem nú hefur hafið innreið sína kemur til af Evróputilskipun, eins og farið hefur verið yfir, og hafa íslensk stjórnvöld á umliðnum árum verið að undirbúa þá innleiðingu sem kallar á breytta skipun umhverfis raforkumála landsins. Markmiðið með þeirri lagasetningu er að auka hagræði innan greinarinnar til lengri tíma litið með það að markmiði að bæta hag allra raforkukaupenda.

Þetta hefur hins vegar ekki gengið eftir á vissum sviðum til skemmri tíma litið. En ég ber þá von í brjósti að þegar fram líða stundir muni hagræðing innan greinarinnar skila sér til heimilanna í landinu og atvinnulífsins og auka þannig samkeppnishæfni Íslands í samfélagi þjóðanna.

Hæstv. forseti. Þegar hin nýja löggjöf leysir þá gömlu af hólmi blasa við nokkur úrlausnarefni sem lúta að því að í hinu gamla umhverfi raforkumála voru innri niðurgreiðslur þar sem almennir notendur, heimili jafnt sem fyrirtæki, greiddu niður orkuverð til einstakra aðila. Við þessu þurfum við að bregðast og það útspil sem hæstv. ráðherra hefur nú lagt á borðið er til marks um það.

En það er mjög skiljanlegt í hinni pólitísku umræðu, að þegar hækkun húshitunarverðs ber á góma þá fari að loga eldar í samfélaginu. Við hv. þingmenn sem fórum um kjördæmi okkar fundum að þetta málefni lá mjög þungt á fólki víða um land enda er hér verið að tala um lífskjör fólksins í landinu og fyrst og fremst spurninguna um hvort við viljum halda landinu í byggð. Ég veit ekki hvernig hv. stjórnarandstæðingar á þinginu hafa getað lagt öðruvísi út af orðum stjórnarliðanna en að við viljum stuðla að því að svo verði áfram og við því er verið að bregðast.

Við upphaf þessarar löggjafar hafa komið fram bæði kostir og gallar. Kostirnir eru ekki litlir, þeir lúta að því að hagur margra fyrirtækja, sem oft eru burðarásar atvinnulífs í viðkomandi byggðarlögum, mun stórbatna. Þar er ég sérstaklega að tala um hag fyrirtækja á Rarikssvæðinu, hvort sem það er í þéttbýli eða dreifbýli, þar er verið að tala um lækkun um allt að 20–25% og mun sérstaklega koma fiskvinnslunni til góða. Ég hefði haldið að það væri mjög gott innlegg í þá umræðu um íslenskan sjávarútveg sem nú fer fram í íslensku samfélagi þar sem ytri áhrif íslensks sjávarútvegs hafa verið mjög erfið en trúlega mun fiskvinnslan í landinu njóta mjög góðs af breyttu umhverfi raforkumála.

En eins og ég hef sagt þá eru líka gallar á hinu nýskipaða umhverfi sem við erum að fylgja úr hlaði og við erum að leita leiða til úrlausna í þeim efnum. Nú upp úr áramótum kom í ljós að kostnaður heimila sem þurfa að kynda hús sín með raforku mundi hækka allverulega, um tugi prósenta í mörgum tilfellum. Það var miklu meiri hækkun en við alþingismenn höfðum gert okkur í hugarlund þegar við vorum að bæta þessa löggjöf fyrir áramótin.

Í kjölfar þessara frétta, þessara válegu tíðinda komu bæði hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. forsætisráðherra fram á sviðið og gáfu fyrirheit um að hækkanirnar yrðu skoðaðar sérstaklega og gripið yrði til aðgerða. Við sjáum birtingarmynd þess hér í dag þegar gripið er til þeirra aðgerða að setja á annað hundrað milljónir til verkefnis í því skyni að lækka húshitunarkostnað þeirra heimila sem þurfa að kynda hús sín með rafmagni. Hér er verið að grípa til viðbótaraðgerða.

Ég er á því, og ég held að stjórnarmeirihlutinn sé almennt á því — reyndar fáum við stundum misvísandi skilaboð frá stjórnarandstöðunni þegar við tölum um búsetustyrki, sumum samfylkingarmönnunum finnst nú nokkuð vel í lagt í landbúnaðarkerfinu og öðrum slíkum málaflokkum — að ef við ætlum að byggja þetta land verður að vera hér ein þjóð í einu landi. Það hefur áhrif á búsetu hvort húshitunarkostnaður er 5 þúsund kr. hærri eða lægri á mánuði, það hefur áhrif á hvar fólk velur sér búsetu og við í ríkisstjórnarflokkunum skiljum þær staðreyndir. Þess vegna fagna ég því útspili ríkisstjórnarinnar að lækka reikning þessara heimila um á annað hundrað milljónir.

Hæstv. forseti. Á þeim stutta tíma á ég eftir að fara yfir margt, m.a. tvær atvinnugreinar sem skipta landsbyggðina mjög miklu máli og ég vil fara yfir það í seinni hluta ræðu minnar. En ég vil að lokum segja það að iðnaðarnefnd mun að sjálfsögðu fara mjög vandlega yfir þetta mál. Við munum kalla á fund okkar iðnaðarnefnd þingsins, raforkufyrirtækin í landinu, Orkustofnun og fleiri aðila er þetta mál varðar, vegna þess að það er staðreynd, hvort sem við erum í stjórnarmeirihluta eða minni hluta að við höfum fengið misvísandi upplýsingar.

Það er t.d. ein spurning sem brennur á mér, hún er sú hvort breytingin á umhverfi raforkumála á landinu hafi haft þau áhrif að tekjur þessara fyrirtækja mundu aukast eða lækka eftir tilfellum. En ég legg áherslu á að við munum vinna í þessu máli í iðnaðarnefnd þingsins og ég held að við þurfum ekki að skipta okkur í tvo hópa í þeim efnum, hvort sem við erum í stjórnarmeirihluta eða minni hluta. Þetta er hagsmunamál landsbyggðarinnar og við viljum standa vörð um hinar dreifðu byggðir, ég vona að flestir þingmenn vilji það á annað borð, og að því munum við vinna í starfi okkar innan iðnaðarnefndar.