131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[15:14]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar þá hefur verið unnið að þessari löggjöf í mörg ár, til að innleiða þessa nýju tilskipun. En eftir öll þessi ár eru sum raforkufyrirtækin ekki enn tilbúin, eða töldu sig ekki vera tilbúin um síðustu áramót til að innleiða eða fara eftir þessari nýju löggjöf. Hvað átti að gefa þessum fyrirtækjum mörg ár til viðbótar? Við urðum að innleiða löggjöfina samkvæmt EES-tilskipun. EES-samningurinn hefur fært okkur mikla auðlegð á umliðnum árum, honum fylgja að sjálfsögðu bæði kostir og gallar. Ég tel að með hinu nýskipaða umhverfi raforkumála, með þeirri hagræðingarkröfu sem hún felur í sér, muni þetta til lengri tíma litið skila íslenskum almenningi og íslensku atvinnulífi lægra orkuverði. Í svo umfangsmiklu máli sem breytingin felur í sér, þá er mjög eðlilegt að einhver ný úrlausnarefni blasi við okkur hv. þingmönnum. Við eigum að vera menn til að takast á við þau, en ekki að koma hér upp í ræðustól og tala um eintóm vandamál og yppa öxlum.