131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[15:18]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í stuttu andsvari ætla ég ekki að fara yfir einstaka fundi í iðnaðarnefnd. En það liggur hins vegar á borðinu og við hv. þingmaður erum sammála um það að í tilfelli sumra orkufyrirtækjanna kom í ljós hér upp úr áramótum að taxtar urðu mun hærri en við gerðum ráð fyrir. Ég fagna því þeirri yfirlýsingu hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar að þetta sé úrlausnarefni sem iðnaðarnefndin, bæði meiri hluti og minni hluti, stendur frammi fyrir. Þetta er gríðarlegt byggðamál. Við hv. þingmaður erum væntanlega sammála um það að sú umræða sem hefur átt sér stað nú að undanförnu hefur legið mjög þungt á íbúum t.d. í okkar ágæta Norðausturkjördæmi eða á Vestfjörðum, enda hafa viðbrögð stjórnarmeirihlutans á Alþingi verið á einn veg. Við ætlum að bregðast við þessu úrlausnarefni og reyna að koma í veg fyrr að stórhækkanir verði á raforkuverði til húshitunar. Reyndar skulum við ekki gleyma því að verð á almennri raforku á heimilum mun lækka. Eins og ég fór yfir hér áðan þá er hér um að ræða kosti og galla sem fylgja hinni nýju löggjöf og við erum einfaldlega að vinna úr því máli að bæta þessa löggjöf enn frekar.