131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[15:30]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að hv. þingmaður var að efast um að Framsóknarflokkurinn væri landsbyggðarflokkur ætla ég bara að ítreka að svo er. Hins vegar er munurinn á Samfylkingunni og Framsóknarflokknum sá að í Samfylkingunni er bara einn landsbyggðarmaður — það er ekki landsbyggðarflokkur — og það var hv. þingmaður sem talaði hér.

Það kom ýmislegt fram sem er ástæða til að bregðast við. Hv. þingmaður sagði: Þetta átti ekki að koma svona út. Það má alveg taka undir að þetta átti ekkert að koma svona út, það urðu meiri hækkanir en við reiknuðum með. Hins vegar var alveg ljóst að það yrðu hækkanir og það veit hv. þingmaður sem sat í 19 manna nefndinni. (Gripið fram í: Nei.) Við vissum ekki hvernig við mundum bregðast við þeim og við vissum ekki fyrr en gjaldskrá var komin fram hversu miklar hækkanirnar yrðu og þess vegna er einmitt viðfangsefnið núna að bregðast við og við verðum bara að taka því eins og það er.

Hv. þingmaður talaði um að 230 millj. væri ekki nægilega há upphæð. Það er hins vegar misskilningur. 230 millj. duga fyrir því sem þeim var ætlað, að greiða niður dreifingarkostnað í dreifbýli þannig að hann verði ekki hærri en þar sem hann er hæstur í þéttbýli. 230 millj. duga. Hins vegar ætlum við að bæta við þessar 900 millj. til að koma til móts við þetta mál.

Hv. þingmaður sagðist ekki mæla með sóun og við erum alveg sammála um það. Ég sé að hægt sé að verja það að fara niður í 35 þús. kwst. Hins vegar vil ég líka taka fram að það er samkomulag milli Orkustofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins um orkusparnaðaraðgerðir sem ég get ekki farið nákvæmlega í núna. Það þýðir að hægt er að mynda hús t.d. með infrarauðri myndavél þannig að fólk getur fengið þá þjónustu ef það vill vita hvort einangrun sé eitthvað ábótavant. Þetta getum við rætt frekar síðar, það er til öll tækni sem þarf í þetta.