131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[15:38]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú svo með allar breytingar að þær kunna að orka tvímælis þá gerðar eru. En þegar við horfum á þær breytingar og þá umræðu sem fram hefur farið um raforkumálin liggur auðvitað fyrir eins og hæstv. iðnaðarráðherra hefur sagt að það séu engin ný tilefni til hækkana.

Ég minnist þess að ríkisstjórnin og hæstv. iðnaðarráðherra stóðu í stórslagsmálum á síðasta ári til að minna Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjun á að í þessu væru engin ný tilefni. Það voru mikil átök. Hins vegar liggur fyrir að Rarik og Orkubúið telja sig þurfa heilmiklar hækkanir og fara verður vel yfir það hvort þar séu einhver tilefni sem verið er að nota sér vegna breytinganna.

Hitt er annað mál að ég man eftir umræðu um breytinguna á bönkunum þegar verið var að einkavæða þá, þá var hún nákvæmlega eins og þessi umræða, að allt væri að hækka og að allt væri að fara á heljarveg. En hvað hefur gerst? Mikil samkeppni hefur skapast á peningamarkaði almenningi til hagsbóta, ekki síst í íbúðarhúsnæði. Kannski kann þessi breyting að leiða það af sér að það gerist líka á þessu sviði þegar frá líður og þessi umræða verði sú gleymda umræða sem enginn vill rifja upp. Ég ætla að vona að svo verði.

Hins vegar er ljóst í mínum huga að við verðum að halda utan um okkar minnstu bræður af mikilli nákvæmni. Núverandi ríkisstjórn er með 900 millj. í niðurgreiðslu á köld svæði og hefur staðið að því að auka niðurgreiðslur.

Af því að ég var spurður um garðyrkjuna þá liggur fyrir að aðlögunarsamningurinn sem gerður var um að lækka verð og þeir kepptu á heimsmarkaði, þar þarf heilmikla peninga og það er inni í umræðu ríkisstjórnar að koma til móts við garðyrkjubændur. Ég hygg að það þurfi 55–60 millj. til þess að þeir standist þá samkeppni. Fiskeldismenn eru hins vegar í viðræðum við Landsvirkjun um sín mál, hvernig þeir geti leyst þau og náð samningi áfram. Að þessu er því verið að vinna eins og öllu hinu. Við reynum að koma til móts við þessa aðila, að breytingin (Forseti hringir.) hafi ekki þau áhrif að menn standi höllum fæti.