131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[15:41]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þarf svo sem ekki að bregðast við neinu sérstöku í andsvari hæstv. landbúnaðarráðherra við ræðu minni, (Gripið fram í: Magnað.) en ég endurtek spurningu mína um garðyrkjubændur. Hversu há upphæð þyrfti að koma til til þess að garðyrkjubændur væru á sama orkutaxta og fyrir breytinguna fyrir áramót til þess að þeir haldi áfram rekstrarskilyrðum sínum? Ég sé það í svari við fyrirspurn frá mér sem ég hef vitnað til að niðurgreiðsla vegna garðyrkjulýsingar var árið 2002 í kringum 10 millj. kr. Er það virkilega bara sú upphæð eða er hún hærri?

Ég spyr líka að því og fæ kannski ekki svar við því frá hæstv. landbúnaðarráðherra: Hvað á að gera gagnvart fiskeldisfyrirtækjunum? Ég vil segja það vegna orða hæstv. ráðherra um að fiskeldisfyrirtækin séu í viðræðum við Landsvirkjun um áframhaldandi afslátt: Ég trúi því ekki að skilja beri þetta þannig að menn séu með einhvern bráðabirgðaplástur vegna þessa. Er þetta eitthvað sem er bara verið að plástra til fyrir ár eða hálft ár eða eitthvað svoleiðis og á svo að dúkka upp aftur?

Virðulegi forseti. Ég vil segja við hæstv. landbúnaðarráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra sem bæði koma úr landsbyggðarkjördæmum: Við getum ekki sætt okkur við þessar stanslausu árásir á atvinnulífið á landsbyggðinni og það á ekki að redda þessu með einhverjum plástrum eða skammtímalækningum. Við þurfum framtíðarsýn svo þessi atvinnurekstur geti búið áfram við það öryggi sem verið hefur hingað til þó svo að erfiðleikarnir séu töluverðir.