131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[16:14]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst hv. þingmanni vaxa það nokkuð í augum sem við stöndum frammi fyrir því auðvitað er það ákveðið verkefni að vinna úr þegar við … (GAK: Þetta er atvinnuskapandi verkefni.) Það er bara þannig í pólitík að það liggja alltaf einhver verkefni fyrir og þetta er eitt af þeim verkefnum sem við stöndum frammi fyrir núna. Ég tel að með þeim tillögum sem ég kynnti áðan séu stjórnvöld að koma verulega til móts við þá sem þessar hækkanir vegna húshitunar bitna á. Það var ljóst þegar 19 manna nefndin skilaði af sér að húshitunarkostnaðurinn mundi hækka ef ekki yrði gripið til sérstakra ráðstafana. Ég sagði þá að við hefðum ákveðið svigrúm innan 900 millj. og það yrði nýtt. Það er nýtt með því núna að það koma 57 millj. til ráðstöfunar vegna þess að við förum niður með þakið og 30 millj. að auki sem við ætlum að taka úr þessum potti í niðurgreiðslurnar. En það dugar ekki til og þess vegna fást væntanlega viðbótarfjármunir á fjárlögum, en ég vil taka fram að ríkisstjórnin samþykkir ekki fjárlög heldur þingið og þess vegna tala ég varlega þegar ég segi að þetta sé tillaga ríkisstjórnarinnar og síðan er það Alþingis að samþykkja það á fjáraukalögum.

Ég ítreka að það er ekki um nein mistök að ræða. Það er framvinda málsins sem hefur leitt það í ljós að málið lítur svona út. Ég hef alltaf talað mjög varlega í sambandi við hækkanir eða lækkanir og þegar hv. þingmenn segja að ég hafi talað um einhverja hundraðkalla (Gripið fram í.) þá hefur það verið í einhverju afmörkuðu tilviki en ekki í sambandi við heildina því ég veit að það eru verðlagshækkanir, það er hækkun vegna Landsnets og Landsvirkjunar upp á 2%, eins og kom fram hjá mér áðan, og fyrirtækin eru að gera arðsemiskröfur sem þau hafa ekki gert. Þau hafa verið rekin með tapi, þau hafa verið dálítið á spenanum hjá ríkinu og það er bara ekki lengur. Nú verða þau að gera svo vel að spjara sig upp á eigin spýtur.