131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[16:34]

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Svarið er nei, það er ekki ásættanlegt nema að um sé að ræða almenna hækkun í kerfinu gagnvart öllum notendum þannig að þeir verði ekki fyrir meiri hækkunum en aðrir.

Það er svo annað mál að ef slík almenn hækkun væri að verða þá er það ekki ásættanlegt út frá stöðugleika í efnahagslífinu. Við getum ekki leyft opinberum raforkufyrirtækjum að auka tekjur sínar svo mikið með almennum hætti í þeirri þröngu stöðu sem við erum í í viðleitni okkar til að halda jafnvægi í efnahagsmálum.

Ég vil benda á eina staðreynd sem er ákaflega mikið umhugsunarefni. Ef við tökum venjubundinn notanda á Vestfjörðum sem notar 40 þúsund kwst., 35 þúsund til húshitunar og 5 þúsund með almennum taxta, þá hækkar kostnaður hjá honum á ársgrundvelli úr 126 þúsund í 142 þúsund eða um 16 þús. kr. eftir niðurgreiðslur.

Svo rek ég augun í að 12 þús. kr. hækkun af þessum 16 þúsundum er vegna þess að niðurgreiðslurnar lækka. Þessi notandi hefur haft 90 þús. kr. á ári í niðurgreiðslur en þær lækka í 78 þús. kr. Og ég spyr: Af hverju? Kerfisbreytingin átti ekki að lækka niðurgreiðslur til þessa notanda. Af hverju á hún þá að hækka þann hluta sem hann ber af raforkukostnaði sínum?