131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[16:52]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Umræðan í dag hefur snúist að langmestu leyti um þá gjaldskrá sem nú er að líta dagsins ljós hjá raforkufyrirtækjunum í landinu en mjög lítið um það umhverfi sem er að verða til að öðru leyti. En auðvitað mun það umhverfi sem verður til á þessum markaði ráða því hver gjaldskráin verður í framtíðinni og ég verð fyrir miklum vonbrigðum ef hæstv. ráðherra ætlar ekki að spila neinu fram í þessa umræðu vegna þess að ég tók það þannig fyrir jólahléið að hæstv. ráðherra ætlaði að tala um umhverfi í raforkugeiranum í þeirri umræðu sem fram færi þegar þingið kæmi saman, ekki bara um gjaldskrána. Þá hafði hæstv. ráðherra fullan hug á því eftir því sem ég skildi að það yrði af einhvers konar sameiningu Rariks, Landsvirkjunar og Orkubús Vestfjarða og líka að Akureyringar og Reykvíkingar yrðu leystir út úr Landsvirkjun. Ekki eru þetta lítil mál og skipta gríðarlegu miklu máli í þeirri framtíð sem verður til á þessum markaði.

Mér finnst að þingmenn eigi ekki að sætta sig við það að þeir fái ekki umræðu um aðalatriði þeirra mála og það sem mestu máli skiptir inn í sali Alþingis. Þetta mun auðvitað skipta mestu máli ef til á að verða einhvers konar samkeppnisumhverfi í raforkugeiranum. Hvernig mun sú samkeppni virka ef skilaboðin inn á markaðinn frá hendi ríkisvaldsins verða þessi: Við sameinum öll ríkisfyrirtækin. Í stað þess að búa til einingar sem geta keppt á markaðnum þá sameinum við þau öll saman. Og yfir 90% af allri raforkuframleiðslunni komin undir einn hatt. Hvað verður þá um hina aðilana á markaðnum? Það eru skilaboð til þeirra um að þeir verði að sameinast. Þá verða til tvö fyrirtæki í landinu fyrir utan einhverja raforkubændur sem eru með eitt eða tvö kílóvött eða hvað það nú er sem eiga að keppa um raforkuneytendur í landinu, annað með 90% af orkunni eða 80–90% eftir því hvað bætist við og hitt með kannski 15–20% eða hvernig sem það nú verður. Að minnsta kosti verður mismunurinn gríðarlega mikill á stærð þessara fyrirtækja þó að hin fyrirtækin á markaðnum sameinist til að standa í samkeppni við hina stóru Landsvirkjun.

Þetta finnst mér að þurfi að ræða hér. Er þetta það sem menn vilja? Og hvernig verður þessi samkeppni? Gæti hún ekki orðið eitthvað lík þeirri samkeppni sem við höfum séð áður á fákeppnismarkaði á Íslandi? Hvað eru menn að tala um?

Um nýliðin áramót átti að verða til samkeppni að hluta til á þessum markaði. Það er alveg greinilegt að hún virkar ekki. Menn hafa óskað eftir tilboðum í að skaffa rafmagn frá þeim fyrirtækjum sem eru núna á markaðnum og það stendur á svörum. Það virðist alla vega ekki vera komið á það samkeppnisumhverfi gagnvart stóru aðilunum sem átti að verða til og þetta þurfa menn auðvitað að ræða og skoða í nefndinni. Ég hvet hæstv. ráðherra og reyni það enn einu sinni og óska eftir því að hæstv. ráðherra geri að einhverju leyti grein fyrir því hverjar fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar eru í þessum málum.