131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[16:56]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að áhugavert hefði verið að hafa þessa umræðu á breiðari grundvelli og reyndar hafði ég hugsað mér að hún yrði það. Ég var búin að semja helmingi lengri ræðu en ég flutti en vegna þeirra tímamarka sem höfðu verið sett gat ég ekki komist yfir að tala um meira en það sem er núna fyrst og fremst í umræðunni, þ.e. hækkanir á raforkuverði og sérstaklega til húshitunar. En hitt málið er stórt og við töluðum um það fyrir jól, ég kannast alveg við það að við þyrftum að taka þá umræðu. En í rauninni hefur ekkert gerst síðan þá í sambandi við þetta stóra mál að kaupa Reykjavík og Akureyri út úr Landsvirkjun þannig að Landsvirkjun sé í eigu ríkisins sem gefur þá möguleika á því að ríkið sameini eign sína í raforkufyrirtækjum inn í eitt fyrirtæki. Ég held því fram að þannig skapist samkeppnisumhverfi frekar en með því að ríkið eigi þessi fyrirtæki þrjú hvert eitt og sér.

Ég heyrði áður í umræðunni að efasemdir voru um að svo yrði en það er eindregið skoðun mín að af þessu yrði mikil hagræðing sem gefur fyrirtækjunum þá tækifæri til að láta það verða sýnilegt gagnvart neytendum. Maður þorir varla að tala um verðlækkanir lengur því að það er eitthvað sem fólk hefur greinilega ekki trú á að geti orðið en ég vil þó halda því til haga að það er um verulegar lækkanir að ræða núna á raforkuverði með þeim breytingum sem við höfum gert á landsbyggðinni og sérstaklega gagnvart fyrirtækjum. En það er alveg rétt eins og hv. þingmaður segir, þetta eru gríðarlega stór mál. Það eru gríðarleg verðmæti í þessum orkufyrirtækjum okkar og það skiptir miklu máli hvernig ríkið sem eigandi fer með þá eign.