131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[17:08]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, við hv. þingmaður erum vissulega sammála um að umhverfið verður skýrara að ýmsu leyti. Þingmenn hafa auðvitað verið veikir fyrir því á undanförnum árum að nota ríkisfyrirtæki til að veita fjármuni til ýmissa verkefna, meira að segja Landsvirkjun hefur verið notuð með þeim hætti þótt hún hafi verið í sameign með öðrum en ríkinu.

Út af fyrir sig er hægt að segja að það sé bara gott að málin komist upp á borðið og það komi fram í fjárlögum ef fjármunir frá hinu opinbera eru á annað borð notaðir til að styrkja tiltekna starfsemi, hvort sem það heitir fiskeldi eða eitthvað annað. Ekki er ég á móti því að staðið sé við bakið á nýjum atvinnugreinum og reynt að koma þeim af stað með framlögum úr ríkissjóði en auðvitað verður fiskeldi framtíðarinnar að standa í fæturna sjálft og afla sér tilboða í raforku af þeim markaði sem þá verður. Þannig þyrfti það að vera.

Ég hef hins vegar miklar áhyggjur af þeim markaði sem þar á að verða til og tel það margra daga virði í messum — við skulum hafa þær í iðnaðarnefnd — að fara yfir það með hvaða hætti megi koma á umhverfi sem yrði einhver alvöru samkeppni í og heilbrigð samkeppni. Ég vil ekki samkeppni sem kollvarpar fyrirtækjum. Ég vil samkeppni þar sem menn geta keppt heiðarlega um þjónustu, um neytendur á þeim markaði en ekki blóðuga samkeppni sem kostar gjaldþrot og annað slíkt.

Ég held að það séu margar hættur fram undan í þessu og þurfi að halda virkilega vel utan um þessi mál. En eins og er lítur ekki út fyrir að samkeppnin sé farin að blómstra.