131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[17:28]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem hv. þingmaður sagði staðfestir að ég fór með rétt mál í framsöguræðu minni. Hann sagði: Hitaveita Suðurnesja hefur verið með lægsta orkuverð á landinu. Það er rétt. En ég var líka að útskýra það í og með hvers vegna svo hefur verið. Það er vegna sérkjara sem fyrirtækið naut og nýtur ekki lengur.

Ég efast ekki um að fyrirtækið sé vel rekið og allt sem hægt er að segja jákvætt um það myndarlega fyrirtæki. Ég vil fá að nota tækifærið til að þakka fyrir að í sambandi við tilkynningar um gjaldskrá hjá fyrirtækinu þá voru ekki neinar glósur um raforkulög eða annað slíkt heldur vel og skilmerkilega frá því greint og útskýrt hvernig sú gjaldskrá er upp byggð.

Ég mun halda ræðu á eftir og þá ætla ég að fara yfir þau mál er tengjast garðyrkjubændum, fiskeldi og öðru. Ég held að það gefist ekki tími til að byrja þá umræðu í þessu andsvari.

En ég vil ítreka það að þegar ég talaði um 2,5% hækkun þá var ég ekki að tala um heildarhækkun heldur afmarkaðan hluta málsins.